þriðjudagur, mars 18, 2008

Hellúú

Hæ hæ
Þessi síða hefur verið hálf slöpp undanfarið svo um að gera að reyna að bæta aðeins úr því eins og Ólöf var að gera og ég skora einnig á ykkur hinar að halda lífinu í henni áfram.
Ásta var að tala um hvort við værum komin í páskafrí, ég hef ekki fundið mikið fyrir því enn og eins og búast má við hjá mér eru dagarnir mjög svipaðir. En við ætlum hinsvegar að fara vestur og vera þar yfir hátíðisdagana. Það er bara spurning hvort við förum á Skírdag eða Föstudaginn langa, það er eitthvað leiðinleg spáin á Skírdag svo við ætlum að sjá til.
Þessi síðasta helgi var bæði mjög skemmtileg og líka mjög leiðinleg. Ég fór af stað full tilhlökkunar til Reykjavíkur á föstudaginn og ætlaði nú aldeilis að hafa gaman um helgina enda alveg full dagskrá hjá okkur. Ég og strákarnir byrjuðum á að fara í smáralindina og hitta þar Helgu og Steinunni. Þar fengum við okkur ís og skoðuðum svo í tvær búðir og þá var bundinn snöggur endir á þá ferð með því að Geirmundur ælir á gólfið frammi á gangi. OOhhh ekki það skemmtilegasta að lenda í. Ég dreif mig bara strax með hann heim til mömmu og pabba en á leiðinni þangað heyrist mér hann vera að fara að gubba og gríp poka sem í voru sparibuxurnar hans Rúnars og sturta þeim úr pokanum og segi honum að gubba í pokann og sem betur fer gerði hann það. Alveg voða snyrtilega svo ekki kom neitt út fyrir eða á fötin hans.
Þar með var það byrjað, hann var komin með gubbupest og ældi nokkrum sinnum í viðbót. Á sunnudaginn byrjaði svo Kristján Snær og aðfaranótt mánudags byrjaði svo Rúnar. Svo ég er sú eina sem er hraust hér á þessum bæ, 7,9,13.
En allavega þetta var það leiðinlega við þessa helgi en það skemmtilega við hana var það á föstudagskvöldinu skelltum við Rúnar okkur á Sálartónleikana, tuttugu ára afmælistónleikana. Við sálaraðdáendurnir gátum ekki látið þá framhjá okkur fara. Þetta voru mjög skemmtilegir tónleikar eins og við var að búast. Við fórum svo í þrítugsafmæli upp á Skaga á laugardagskvöldið til Erlu svilkonu minnar. Það var líka mjög skemmtilegt.
Rúnar var að vinna alla helgina í Rvk. við að parketleggja á milli þess sem við fórum í afmæli og á tónleika og á meðan sá ég um sjúklingana mína. Svo þar sem Rúnar er að vinna alltaf í Reykjavík og ég þurfti að mæta á mánudagsmorgninum í myndatöku ákváðum við að vera eina nótt í viðbót í bænum hjá mömmu og pabba. Þessi myndataka var mjög gleðileg fyrir mig, það kom í ljós að líklega er ég komin yfir þennan sjúkdóm Sarklíki því myndin var eðlileg og blóðprufur líka. Ég er því útskrifuð nema eitthvað breytist og ég er mjög fegin að vera laus við þessar læknaheimsóknir mínar. Svo þessi helgi var mjög viðburðarrík, skemmtileg og leiðinleg.
Ég held að ég sé búin að blogga fyrir árið, svoldið langt, en þeim sem nenntu að lesa svona langt óska ég bara gleðilegra páska :)
kveðja Bryndís
Enn eitt í viðbót verður ekki matarklúbbur í mars??