laugardagur, október 31, 2009

Takk fyrir komuna

Takk fyrir komuna í morgun

Við vorum himinsæl með þennan óhefðbundna matarklúbb þó að miss piggy hafi sett nokkuð strik í mætingu. Alltaf gaman að hittast og spjalla í góðra vina hópi.

Við munum láta vita hvaða helgi í júlí verður haldinn Gautaborgarmatarklúbbur, fljótlega upp úr áramótum. Að sjálfsögðu ætlumst við alls ekki til að fólk mæti en það er komin svo gamalgróin hefð á þennan klúbb og við viljum endilega halda áfram að bjóða jafnvel þó að ekkert eða bara eitt par ( eða Ásta) mæti. Allt meira en það er bónus. Það mun verða boðið upp á gistingu fyrir alla sem vilja koma í heimsókn hvenær sem er ársins þó að þröngt verði á heimilinu.

kv Dögg

sunnudagur, október 18, 2009

Næsti mató

Við ætlum að hafa matarklúbb laugardaginn 31 október, síðustu helgina í mánuðinum. Það var erfitt að finna helgi sem myndi hennta öllum, sérstaklega því að strákarnir eru að fara í sumarbústaðarferðina sína næstu helgi.

Við ætlum að hafa óhefðbundinn matarklúbb og það verður Brunch. Það eiga allir að koma með eitthvað sem sæmir sér vel á Brunch borði. Það eru allir fjölskyldumeðlimir velkomnir en við munum fara að ráðleggingum sóttvarnarlæknis að þeir sem hafa verið veikir eigi að halda sig heima 7 daga frá því að veikindin hófust. Við viljum nú ekki að allur matarklúbburinn leggist í svínaflensu.

Við mælum með að það verði tekin með inni og útileikföng fyrir börnin því það er ekki svo mikið úrval af leikföngum hér nema fyrir þessi allra minnstu.

mæting kl 11

fimmtudagur, október 15, 2009

Góðan daginn
Við ætlum að hafa smá kaffiboð næsta laugardag klukkan þrjú, í tilefni þess að Kristján Snær varð 2 ára þann 13. okt. sl. Þið eruð velkomin þeir sem vilja, en endilega látið mig vita hvort þið komið eða ekki.
Ég ætla þó að vona að ég þurfi ekki að aflýsa þessu því Kristján er sko veikur núna, en við vonum bara að hann verði orðin hress á laugardaginn, annars læt ég ykkur vita.
kveðja Bryndís

laugardagur, október 10, 2009

Ekkert að frétta


Við Adríahafið. Lítill, gamall bær sem kallast Piran


Góðan daginn.
Hvað er ferskara en að blogga eldsnemma á laugardagsmorgni.. Kommon, ég var vöknuð fyrir klukkan sjö, hvaða rugl er nú það.

Annars, lítið að frétta héðan. Kom heim frá Slóveníu á mánudaginn. Ferðin gekk vel, var reyndar nokkuð stressuð fyrir fyrirlesturinn (náladofi í puttunum meðal annars) en hann gekk bara ágætlega og ég er súperstolt af sjálfri mér. Sérstaklega þar sem fólkið sem tók þátt í málstofunni og nokkrir hlustendur voru þekkt glákunöfn, nöfn sem eru á annarri hvorri grein sem ég les.
Slóvenía kom á óvart, mjög fallegt og afslappað land. Veðrið var mjög gott, sandalar og stuttermabolir undir pálmatrjám :)Mæli með Suður Evrópu.
Þegar að ég kom heim þá var spennufallið gríðarlegt eftir álagið undanfarnar vikur. Rannís umsóknirnar tóku allt of mikinn tíma þannig að undirbúningur fyrir ráðstefnuna var miklu takmarkaðri en ég ætlaði mér. Ferðin sjálf var líka mikil keyrsla. Ég er því búin að vera í einhvers konar zombie ástandi frá því að ég kom heim þar til í gær, þá vaknaði ég aftur til lífsins. Saumaði slátur með mömmu og Önnu Fanneyju og ætla að skrappa í dag (ásamt því að taka til, það fylgir).

Allaveganna, ef ykkur langar í flott sumarfrí þá segi ég flug og bíll um suður Evrópu. Heillaði mig.


Þar sem að það er allt lokað á sunnudögum í Ljubljana þá skelltum við okkur í bíltúr og keyrðum að þessu fallega vatni við lítið þorp sem kallast Bled. Alparnir liggja í bakgrunninum. Austurríki er í svona hálftíma fjarlægð.