Gleðileg Jól!!
Þetta hafa verið soldið skrítin jól hérna í Alpendorf. Á aðfangadag var farið á skíði eins og aðra daga drukkið bjór upp í fjalli og svo farið í nektar spa, fimm tegundir af gufum, nudd pottur og sundlaug og svo auðvitað afslöppunar herbergi. Þar var ágætt að slappa af fyrir jólasteikina. En það var svo farið upp á herbergi eftir mat og pakkar opnaðir og borðað Nóa konfekt. Annars er maður ekkert í megrun hér þó það sé skíðað mikið. Alltaf á kvöldin er borðað allaveganna fimm rétta máltíð....ég er búin að fá soldið leið á því. Í dag tókum við smá pásu frá skíðunum og fórum til Sazburgar, skoðuðum Mozart safnið og kastala og skoðuðum karkaðinn.
Nú verð ég að fara borða stóra máltíð, skrifa kanski aftur seinna.
Kveðja
Ásta
föstudagur, desember 28, 2007
Öðruvísi jól
Birt af Ásta kl. 5:23 e.h. |
sunnudagur, desember 23, 2007
Gleðileg jól
Úr jólablíðunni hérna á Selfossi sendum við jólakveðjur til ykkar allra og óskir um gleðileg jól.
Í gær tókum við rúntinn um Reykjavík og skiluðum af okkur jólapökkum, við stoppuðum á 10 stöðum, borðuðum mikið af smákökum, drukkum kaffi, te, jólaöl og spjölluðum. Við vorum á ferðinni frá hádegi fram til kl 22 um kvöldið.
Í dag erum við búin að vera í rólegheitum heima, skruppum aðeins í bónus og keyptum smá til jólanna og það var svo rólegt og lítið að gera. Þegar fór að rökkva kveiktum við á kertum um allt hús og út á palli, hlustuðum á jólakveðjurnar í útvarpinu og erum komin í mikið jólaskap. Í kvöld verður eldaður humar, drukkið hvítvín og horft á eitthvað jólalegt í sjónvarpinu.
Gleðileg jól
Dögg og Grímur
Birt af Dögg kl. 7:46 e.h. |
laugardagur, desember 15, 2007
Jóla jóla jóla jóla
Hæ öll og takk fyrir síðast
Mig langaði að deila með ykkur stórskemmtilegri sögu (eða þannig ) um jólaundirbúninginn á heimilinu.
Þetta byrjaði allt á köldu vetrarkvöldi í fyrra þegar nágranni okkar bankaði uppá og spurði okkur hvers konar jólaskreytingar við ætluðum að hafa á húsinu... bara svo allir gætu verið eins í raðhúsalengjunni. Við horfðum á hvort annað en hvorugt þorði að nefna að við höfðum ekki hugsað okkur að hafa neinar jólaskreytingar. Í þessu samtali var því ákveðið að rauðar perur yrðu það heillin. Við örkuðum í Byko og borguðum offjár fyrir "mjög sterkar og endingargóðar seríur". Að framan voru það tvær seriur með rauðum perum 20 ljósa og 40 ljósa. Á pallinn skyldi fara gervigreni og marglit 380 ljósa seria. Innahús voru það hræódýrar (200 kall stykkið) rauðar seríur festar með litlum sogskálum sem kostuðu jafnmikið og seríurnar.
Það tók 3 kvöld að skreyta húsið í fyrra... í ískulda voru negldar upp í þakskeggið festingar fyrir seríurnar og þeim kastað upp.... sami ískuldin kældi kinnarnar þegar grenið og seríurnar voru vafnar við pallinn að aftan og fest með spliff, donk og gengju (eða kannski bara benslum). Inniseríurnar fóru ljúflega og án múðurs í gluggana.
Desember og janúar í fyrra voru með eindæmum veðurblíðir, það hrærði varla hár á höfði. Þó komumst við að því mjög snemma í desember að serían á pallinum var dottin í sundur og var því ónýt, nálægt áramótum var 20 ljósa serían að framan dottin út.
Þessu var öllu pakkað saman fljótlega eftir þrettándan, pallserían fór í ruslið en hinar í kassa.
Í upphafi desember tókum við seríurnar úr kassanum og undirbjuggum af nágrannalegri skyldu uppsetningu ljósanna. Bykoferð farin og fjárfest í nýrri 480 ljósa pallseríu, hún kostaði handlegg en er þó með þeim eiginleika að hægt er að splæsa inn í hana annarri seríu ef hún skyldi detta í sundur á parti. Aftur farið út í frosti og tók 4 klst að koma seríunni upp ásamt greninu. Hún átti að vera alveg fokheld.
20 ljósa "sterka og endinargóða serían" fór ekki í gang þrátt fyrir margþættar endurlífgunartilraunir. Önnur ferð var farin í Byko og þá voru ekki til 20 ljósa rauðar seríur. Ég þurfti því að kaupa 20 ljósa hvíta seríu og 20 rauðar perur og skipta um allar perur í nýju seríunni. Þetta kostaði handlegg og fótlegg og var margbölvað við afgreiðslukassann!!! Henni var kastað upp og var það heldur fljótgerðara en í fyrra. Á spjalli við nágrannan kom í ljós að hans 20 ljósa sería var líka ónýt eftir mánaðarnotkun í fyrra og hann hafði líka þurft að fjárfesta í nýrri í byko. Það kannski útskýrir af hverju það var til nóg af öllum öðrum seríum en 20 ljósa seríunum í rauða litnum. Kannski er þetta bara drasl og það hafa allir sem keyptu þetta í fyrra þurft að fá sér nýja.
Inniseríurnar neituðu með öllu að festast með litlu sogskálunum sem voru dæmdar ónýtar..... ég ætlaði ekki aðra ferð í Byko, það var þegar farið að rjúka úr kredit-kortinu, og ákvað að festa þetta niður með gamalreyndri aðferð úr fífuselinu..... málningarlímband!!!!
Þegar þetta er skrifað hefur gengið á með ofsaveðri annan hvern dag, eftir hvert ofsaveður hefur þurft að fara út á pall og laga til seríuna sem er ekki fokheld þrátt fyrir allt. Í dag stóð ég í tæpan klukkutíma og festi niður seríu með benslum og skipti um perur sem höfðu sprungið. Við sjáum að 20 ljósa serían hjá nágrannanum er nú dauð, blessuð sé minning hennar, hún entist í 2 vikur þetta árið. Okkar lifir enn... við höldum bara í vonina að hún endist mánuðinn.
Af þessu dreg ég nokkrar ályktanir:
1. Þessar útiseríur eru ekki hannaðar fyrir íslenskar aðstæður og geta því talist einnota
2. Það á að setja jólaljósin upp í síðasta lagi í lok september þegar enn er líft að standa úti í nokkra tíma og kveikja svo bara á þeim við henntugleika
3. Sleppa öllum seríum í glugga, kaupa í mesta lagi eina stjörnu sem hægt er að hengja á nagla
4.En jólaljósin eru bara svo falleg að þrátt fyrir óendanlegan kostnað og mikla fyrirhöfn þá get ég ekki hugsað mér að sleppa þessu...þá er bara að skella "National Lampoons Christmas vacation" í DVD spilarann og sjá að það eru til verri ljósavandræði en þau sem við höfum lennt í
5. Hvernig nennir bústaðarvegs gaurinn þessu ár eftir ár?
Hafið þið einhverjar hugleiðingar um jólaundirbúninginn?
kv Dögg
Birt af Dögg kl. 6:48 e.h. |
föstudagur, desember 14, 2007
óveður
Það eru nú einhver álög á þessum matarklúbbum okkar í desember held ég. Ég sit hérna heima í þessu brjálaða veðri og velti fyrir mér, á ég að fara að gera kartöflusalat fyrir 10 manns ef svo enginn kemur í kvöld??? Þetta veður er svo óútreiknanlegt, það gæti verið blíða í kvöld og það gæti verið brjálað. Ég veit ekki svei mér þá hvað við eigum að gera, eigum við að aflýsa þessu eða fresta. En það þýðir náttúrulega að þetta verður að vera á virkum degi. Laugardagurinn gengur ekki hjá okkur. Hvernig hentar þriðjudagskvöld ykkur?
Þetta er bara spurning hvað viljið þið gera höfuðborgarbúar, ég vil náttúrulega ekki vera að stefna fólki í eitthvað óveður en svo getur þetta náttúrulega líka verið gengið niður. Við getum kannski athugað stöðuna aftur á milli þrjú og fjögur.
Verðum í bandi
Bryndís
Birt af Bryndís kl. 9:24 f.h. |
miðvikudagur, desember 05, 2007
Matarklúbbsfyrirkomulag
Sæl öll
Þar eð ég er nú búin að hringja í öll pörin í hópnum þá vitið þið nú um hvað þessi póstur snýst. Það hefur verið svolítið losaralegur bragur á matarklúbbnum okkar undanfarið ár. Það eru margar orsakir fyrir því; það er mikið að gera hjá öllum, við munum ekki hvar við erum í röðinni, það eru mismunandi fjárhags- og húsnæðisaðstæður og oft erfitt að ná að halda 13 manna matarboð.
Ég er sannfærð eftir öll samtölin í dag að það er fullur hugur hjá okkur að halda þessu áfram í sama horfi og reyna að halda hópnum okkar saman. Eftir samtöl við vinkonur mínar sem eru einnig í matarklúbbum þá er í raun einstakt að við höfum náð að halda svona þéttu sambandi þrátt fyrir fjöldann, því það vill verða svo að þegar hóparnir eru orðnir of stórir þá fara þeir að gliðna og orðið of mikið vesen að halda utan um þá. Ég tala nú ekki um kostnaðinn og tilfæringar á heimilum að koma öllum fyrir. Í mínum augum erum við pörin sex og Ásta eins og stórfjölskylda og ég vill mikið til þess vinna að við höldum áfram svona þéttu sambandi.
Breytingin er þannig að nú eru fastir mánuðir öll árin, þá þarf ekki að muna hvar maður er í röðinni, bara hvaða tvo mánuði maður á.
Það er skylda að halda matarboð annan mánuðinn en hinn mánuðinn þarf að skipuleggja eitthvað en það þarf ekki endilega að vera matarboð. Það getur verið partý, Brunch á kaffihúsi, bíóferð, keila, spilakvöld, kaffiboð, bíókvöld heima, ferð í lasertag... hvað sem er í raun en það þarf að skipuleggja eitthvað fyrir allan hópinn.
Einnig sting ég uppá að við höfum fast að við hittumst í þriðju viku í hverjum mánuði, helst á fimmtudags, föstudags eða á laugardagskvöldi/degi. Með þessu móti geta allir reynt að passa að vera lausir á þeim tíma til að mætinginn verði betri. Gott að vera búin að ákveða sig með mánaðar fyrirvara hvaða kvöld á að nota. Ef utanlandsferðir eða annað er á þeim tíma sem viðkomandi á að halda klúbbinn, þarf að láta vita tímanlega og nota þá eitthvað annað kvöld eða skipta við parið/hópinn sem er mánuðinn á eftir eða á undan.
Með þessu móti þá er þetta ekki eins dýrt fyrir hvert og eitt par (og Ástu) og bara eitt stórt matarboð á ári ef viðkomandi vill.
Uppröðunin er svona:
Sigurveig og Óli eru með Janúar og Júní
Ólöf, Ruben og Ásta (þrjú saman amk fyrsta árið) eru með Apríl og Október
Elsa og Fjalar eru með Febrúar og Ágúst
Thelma og Jói eru með Mars og September
Bryndís og Rúnar eru með Desember og Maí
Dögg og Grímur með Júlí og Nóvember
Við pössuðum að vera ekki með Selfoss liðið á þeim mánuðum sem veður er verst (janúar, febrúar, mars). Bryndís og Rúnar halda jólaklúbbnum og við Grímur ætlum að reyna að vera með árlegt pallapartý
Jæja hvernig lýst ykkur á og commentið nú
kv Dögg
Birt af Dögg kl. 8:06 e.h. |
sunnudagur, desember 02, 2007
Jólamatarklúbbur 2007
Við höfum ákveðið að matarklúbburinn verður haldinn, ok ég hef ákveðið að matarklúbburinn verður á föstudeginum 14. des.. Við vorum víst ekki alveg sammála um þetta á þessum bæ!!! :) En mér finnst þetta betra að það séu bara allir afslappaðir, komnir í helgarfrí og þurfa ekki að stressa sig heim með börnin eins snemma. En það er auðvitað leiðinlegt að það komist ekki allir, ég held að það verði bara alltaf þannig.
En allavega mæting er kl. 19:10 og allir hafa með sér pakka. Hver einstaklingur kemur með einn pakka og má kostnaður hans ekki vera meiri en 800 kr. og foreldrar sjá um að koma með pakka handa sínum börnum.
Við hlökkum til að sjá ykkur hress og kát og í jólaskapinu að sjálfsögðu :), ef einhver verður ekki komin í jólaskap, þá verður hann örugglega komin í það eftir þetta kvöld. :)
kveðja Bryndís
Birt af Bryndís kl. 10:58 e.h. |