laugardagur, desember 15, 2007

Jóla jóla jóla jóla

Hæ öll og takk fyrir síðast

Mig langaði að deila með ykkur stórskemmtilegri sögu (eða þannig ) um jólaundirbúninginn á heimilinu.

Þetta byrjaði allt á köldu vetrarkvöldi í fyrra þegar nágranni okkar bankaði uppá og spurði okkur hvers konar jólaskreytingar við ætluðum að hafa á húsinu... bara svo allir gætu verið eins í raðhúsalengjunni. Við horfðum á hvort annað en hvorugt þorði að nefna að við höfðum ekki hugsað okkur að hafa neinar jólaskreytingar. Í þessu samtali var því ákveðið að rauðar perur yrðu það heillin. Við örkuðum í Byko og borguðum offjár fyrir "mjög sterkar og endingargóðar seríur". Að framan voru það tvær seriur með rauðum perum 20 ljósa og 40 ljósa. Á pallinn skyldi fara gervigreni og marglit 380 ljósa seria. Innahús voru það hræódýrar (200 kall stykkið) rauðar seríur festar með litlum sogskálum sem kostuðu jafnmikið og seríurnar.

Það tók 3 kvöld að skreyta húsið í fyrra... í ískulda voru negldar upp í þakskeggið festingar fyrir seríurnar og þeim kastað upp.... sami ískuldin kældi kinnarnar þegar grenið og seríurnar voru vafnar við pallinn að aftan og fest með spliff, donk og gengju (eða kannski bara benslum). Inniseríurnar fóru ljúflega og án múðurs í gluggana.

Desember og janúar í fyrra voru með eindæmum veðurblíðir, það hrærði varla hár á höfði. Þó komumst við að því mjög snemma í desember að serían á pallinum var dottin í sundur og var því ónýt, nálægt áramótum var 20 ljósa serían að framan dottin út.

Þessu var öllu pakkað saman fljótlega eftir þrettándan, pallserían fór í ruslið en hinar í kassa.

Í upphafi desember tókum við seríurnar úr kassanum og undirbjuggum af nágrannalegri skyldu uppsetningu ljósanna. Bykoferð farin og fjárfest í nýrri 480 ljósa pallseríu, hún kostaði handlegg en er þó með þeim eiginleika að hægt er að splæsa inn í hana annarri seríu ef hún skyldi detta í sundur á parti. Aftur farið út í frosti og tók 4 klst að koma seríunni upp ásamt greninu. Hún átti að vera alveg fokheld.

20 ljósa "sterka og endinargóða serían" fór ekki í gang þrátt fyrir margþættar endurlífgunartilraunir. Önnur ferð var farin í Byko og þá voru ekki til 20 ljósa rauðar seríur. Ég þurfti því að kaupa 20 ljósa hvíta seríu og 20 rauðar perur og skipta um allar perur í nýju seríunni. Þetta kostaði handlegg og fótlegg og var margbölvað við afgreiðslukassann!!! Henni var kastað upp og var það heldur fljótgerðara en í fyrra. Á spjalli við nágrannan kom í ljós að hans 20 ljósa sería var líka ónýt eftir mánaðarnotkun í fyrra og hann hafði líka þurft að fjárfesta í nýrri í byko. Það kannski útskýrir af hverju það var til nóg af öllum öðrum seríum en 20 ljósa seríunum í rauða litnum. Kannski er þetta bara drasl og það hafa allir sem keyptu þetta í fyrra þurft að fá sér nýja.

Inniseríurnar neituðu með öllu að festast með litlu sogskálunum sem voru dæmdar ónýtar..... ég ætlaði ekki aðra ferð í Byko, það var þegar farið að rjúka úr kredit-kortinu, og ákvað að festa þetta niður með gamalreyndri aðferð úr fífuselinu..... málningarlímband!!!!

Þegar þetta er skrifað hefur gengið á með ofsaveðri annan hvern dag, eftir hvert ofsaveður hefur þurft að fara út á pall og laga til seríuna sem er ekki fokheld þrátt fyrir allt. Í dag stóð ég í tæpan klukkutíma og festi niður seríu með benslum og skipti um perur sem höfðu sprungið. Við sjáum að 20 ljósa serían hjá nágrannanum er nú dauð, blessuð sé minning hennar, hún entist í 2 vikur þetta árið. Okkar lifir enn... við höldum bara í vonina að hún endist mánuðinn.

Af þessu dreg ég nokkrar ályktanir:

1. Þessar útiseríur eru ekki hannaðar fyrir íslenskar aðstæður og geta því talist einnota
2. Það á að setja jólaljósin upp í síðasta lagi í lok september þegar enn er líft að standa úti í nokkra tíma og kveikja svo bara á þeim við henntugleika
3. Sleppa öllum seríum í glugga, kaupa í mesta lagi eina stjörnu sem hægt er að hengja á nagla
4.En jólaljósin eru bara svo falleg að þrátt fyrir óendanlegan kostnað og mikla fyrirhöfn þá get ég ekki hugsað mér að sleppa þessu...þá er bara að skella "National Lampoons Christmas vacation" í DVD spilarann og sjá að það eru til verri ljósavandræði en þau sem við höfum lennt í
5. Hvernig nennir bústaðarvegs gaurinn þessu ár eftir ár?


Hafið þið einhverjar hugleiðingar um jólaundirbúninginn?

kv Dögg