föstudagur, desember 28, 2007

Öðruvísi jól

Gleðileg Jól!!
Þetta hafa verið soldið skrítin jól hérna í Alpendorf. Á aðfangadag var farið á skíði eins og aðra daga drukkið bjór upp í fjalli og svo farið í nektar spa, fimm tegundir af gufum, nudd pottur og sundlaug og svo auðvitað afslöppunar herbergi. Þar var ágætt að slappa af fyrir jólasteikina. En það var svo farið upp á herbergi eftir mat og pakkar opnaðir og borðað Nóa konfekt. Annars er maður ekkert í megrun hér þó það sé skíðað mikið. Alltaf á kvöldin er borðað allaveganna fimm rétta máltíð....ég er búin að fá soldið leið á því. Í dag tókum við smá pásu frá skíðunum og fórum til Sazburgar, skoðuðum Mozart safnið og kastala og skoðuðum karkaðinn.
Nú verð ég að fara borða stóra máltíð, skrifa kanski aftur seinna.
Kveðja
Ásta

sunnudagur, desember 23, 2007

Gleðileg jól

Úr jólablíðunni hérna á Selfossi sendum við jólakveðjur til ykkar allra og óskir um gleðileg jól.

Í gær tókum við rúntinn um Reykjavík og skiluðum af okkur jólapökkum, við stoppuðum á 10 stöðum, borðuðum mikið af smákökum, drukkum kaffi, te, jólaöl og spjölluðum. Við vorum á ferðinni frá hádegi fram til kl 22 um kvöldið.

Í dag erum við búin að vera í rólegheitum heima, skruppum aðeins í bónus og keyptum smá til jólanna og það var svo rólegt og lítið að gera. Þegar fór að rökkva kveiktum við á kertum um allt hús og út á palli, hlustuðum á jólakveðjurnar í útvarpinu og erum komin í mikið jólaskap. Í kvöld verður eldaður humar, drukkið hvítvín og horft á eitthvað jólalegt í sjónvarpinu.

Gleðileg jól
Dögg og Grímur

laugardagur, desember 15, 2007

Jóla jóla jóla jóla

Hæ öll og takk fyrir síðast

Mig langaði að deila með ykkur stórskemmtilegri sögu (eða þannig ) um jólaundirbúninginn á heimilinu.

Þetta byrjaði allt á köldu vetrarkvöldi í fyrra þegar nágranni okkar bankaði uppá og spurði okkur hvers konar jólaskreytingar við ætluðum að hafa á húsinu... bara svo allir gætu verið eins í raðhúsalengjunni. Við horfðum á hvort annað en hvorugt þorði að nefna að við höfðum ekki hugsað okkur að hafa neinar jólaskreytingar. Í þessu samtali var því ákveðið að rauðar perur yrðu það heillin. Við örkuðum í Byko og borguðum offjár fyrir "mjög sterkar og endingargóðar seríur". Að framan voru það tvær seriur með rauðum perum 20 ljósa og 40 ljósa. Á pallinn skyldi fara gervigreni og marglit 380 ljósa seria. Innahús voru það hræódýrar (200 kall stykkið) rauðar seríur festar með litlum sogskálum sem kostuðu jafnmikið og seríurnar.

Það tók 3 kvöld að skreyta húsið í fyrra... í ískulda voru negldar upp í þakskeggið festingar fyrir seríurnar og þeim kastað upp.... sami ískuldin kældi kinnarnar þegar grenið og seríurnar voru vafnar við pallinn að aftan og fest með spliff, donk og gengju (eða kannski bara benslum). Inniseríurnar fóru ljúflega og án múðurs í gluggana.

Desember og janúar í fyrra voru með eindæmum veðurblíðir, það hrærði varla hár á höfði. Þó komumst við að því mjög snemma í desember að serían á pallinum var dottin í sundur og var því ónýt, nálægt áramótum var 20 ljósa serían að framan dottin út.

Þessu var öllu pakkað saman fljótlega eftir þrettándan, pallserían fór í ruslið en hinar í kassa.

Í upphafi desember tókum við seríurnar úr kassanum og undirbjuggum af nágrannalegri skyldu uppsetningu ljósanna. Bykoferð farin og fjárfest í nýrri 480 ljósa pallseríu, hún kostaði handlegg en er þó með þeim eiginleika að hægt er að splæsa inn í hana annarri seríu ef hún skyldi detta í sundur á parti. Aftur farið út í frosti og tók 4 klst að koma seríunni upp ásamt greninu. Hún átti að vera alveg fokheld.

20 ljósa "sterka og endinargóða serían" fór ekki í gang þrátt fyrir margþættar endurlífgunartilraunir. Önnur ferð var farin í Byko og þá voru ekki til 20 ljósa rauðar seríur. Ég þurfti því að kaupa 20 ljósa hvíta seríu og 20 rauðar perur og skipta um allar perur í nýju seríunni. Þetta kostaði handlegg og fótlegg og var margbölvað við afgreiðslukassann!!! Henni var kastað upp og var það heldur fljótgerðara en í fyrra. Á spjalli við nágrannan kom í ljós að hans 20 ljósa sería var líka ónýt eftir mánaðarnotkun í fyrra og hann hafði líka þurft að fjárfesta í nýrri í byko. Það kannski útskýrir af hverju það var til nóg af öllum öðrum seríum en 20 ljósa seríunum í rauða litnum. Kannski er þetta bara drasl og það hafa allir sem keyptu þetta í fyrra þurft að fá sér nýja.

Inniseríurnar neituðu með öllu að festast með litlu sogskálunum sem voru dæmdar ónýtar..... ég ætlaði ekki aðra ferð í Byko, það var þegar farið að rjúka úr kredit-kortinu, og ákvað að festa þetta niður með gamalreyndri aðferð úr fífuselinu..... málningarlímband!!!!

Þegar þetta er skrifað hefur gengið á með ofsaveðri annan hvern dag, eftir hvert ofsaveður hefur þurft að fara út á pall og laga til seríuna sem er ekki fokheld þrátt fyrir allt. Í dag stóð ég í tæpan klukkutíma og festi niður seríu með benslum og skipti um perur sem höfðu sprungið. Við sjáum að 20 ljósa serían hjá nágrannanum er nú dauð, blessuð sé minning hennar, hún entist í 2 vikur þetta árið. Okkar lifir enn... við höldum bara í vonina að hún endist mánuðinn.

Af þessu dreg ég nokkrar ályktanir:

1. Þessar útiseríur eru ekki hannaðar fyrir íslenskar aðstæður og geta því talist einnota
2. Það á að setja jólaljósin upp í síðasta lagi í lok september þegar enn er líft að standa úti í nokkra tíma og kveikja svo bara á þeim við henntugleika
3. Sleppa öllum seríum í glugga, kaupa í mesta lagi eina stjörnu sem hægt er að hengja á nagla
4.En jólaljósin eru bara svo falleg að þrátt fyrir óendanlegan kostnað og mikla fyrirhöfn þá get ég ekki hugsað mér að sleppa þessu...þá er bara að skella "National Lampoons Christmas vacation" í DVD spilarann og sjá að það eru til verri ljósavandræði en þau sem við höfum lennt í
5. Hvernig nennir bústaðarvegs gaurinn þessu ár eftir ár?


Hafið þið einhverjar hugleiðingar um jólaundirbúninginn?

kv Dögg

föstudagur, desember 14, 2007

óveður

Það eru nú einhver álög á þessum matarklúbbum okkar í desember held ég. Ég sit hérna heima í þessu brjálaða veðri og velti fyrir mér, á ég að fara að gera kartöflusalat fyrir 10 manns ef svo enginn kemur í kvöld??? Þetta veður er svo óútreiknanlegt, það gæti verið blíða í kvöld og það gæti verið brjálað. Ég veit ekki svei mér þá hvað við eigum að gera, eigum við að aflýsa þessu eða fresta. En það þýðir náttúrulega að þetta verður að vera á virkum degi. Laugardagurinn gengur ekki hjá okkur. Hvernig hentar þriðjudagskvöld ykkur?
Þetta er bara spurning hvað viljið þið gera höfuðborgarbúar, ég vil náttúrulega ekki vera að stefna fólki í eitthvað óveður en svo getur þetta náttúrulega líka verið gengið niður. Við getum kannski athugað stöðuna aftur á milli þrjú og fjögur.
Verðum í bandi
Bryndís

miðvikudagur, desember 05, 2007

Matarklúbbsfyrirkomulag

Sæl öll

Þar eð ég er nú búin að hringja í öll pörin í hópnum þá vitið þið nú um hvað þessi póstur snýst. Það hefur verið svolítið losaralegur bragur á matarklúbbnum okkar undanfarið ár. Það eru margar orsakir fyrir því; það er mikið að gera hjá öllum, við munum ekki hvar við erum í röðinni, það eru mismunandi fjárhags- og húsnæðisaðstæður og oft erfitt að ná að halda 13 manna matarboð.

Ég er sannfærð eftir öll samtölin í dag að það er fullur hugur hjá okkur að halda þessu áfram í sama horfi og reyna að halda hópnum okkar saman. Eftir samtöl við vinkonur mínar sem eru einnig í matarklúbbum þá er í raun einstakt að við höfum náð að halda svona þéttu sambandi þrátt fyrir fjöldann, því það vill verða svo að þegar hóparnir eru orðnir of stórir þá fara þeir að gliðna og orðið of mikið vesen að halda utan um þá. Ég tala nú ekki um kostnaðinn og tilfæringar á heimilum að koma öllum fyrir. Í mínum augum erum við pörin sex og Ásta eins og stórfjölskylda og ég vill mikið til þess vinna að við höldum áfram svona þéttu sambandi.

Breytingin er þannig að nú eru fastir mánuðir öll árin, þá þarf ekki að muna hvar maður er í röðinni, bara hvaða tvo mánuði maður á.

Það er skylda að halda matarboð annan mánuðinn en hinn mánuðinn þarf að skipuleggja eitthvað en það þarf ekki endilega að vera matarboð. Það getur verið partý, Brunch á kaffihúsi, bíóferð, keila, spilakvöld, kaffiboð, bíókvöld heima, ferð í lasertag... hvað sem er í raun en það þarf að skipuleggja eitthvað fyrir allan hópinn.

Einnig sting ég uppá að við höfum fast að við hittumst í þriðju viku í hverjum mánuði, helst á fimmtudags, föstudags eða á laugardagskvöldi/degi. Með þessu móti geta allir reynt að passa að vera lausir á þeim tíma til að mætinginn verði betri. Gott að vera búin að ákveða sig með mánaðar fyrirvara hvaða kvöld á að nota. Ef utanlandsferðir eða annað er á þeim tíma sem viðkomandi á að halda klúbbinn, þarf að láta vita tímanlega og nota þá eitthvað annað kvöld eða skipta við parið/hópinn sem er mánuðinn á eftir eða á undan.

Með þessu móti þá er þetta ekki eins dýrt fyrir hvert og eitt par (og Ástu) og bara eitt stórt matarboð á ári ef viðkomandi vill.

Uppröðunin er svona:

Sigurveig og Óli eru með Janúar og Júní

Ólöf, Ruben og Ásta (þrjú saman amk fyrsta árið) eru með Apríl og Október

Elsa og Fjalar eru með Febrúar og Ágúst

Thelma og Jói eru með Mars og September

Bryndís og Rúnar eru með Desember og Maí

Dögg og Grímur með Júlí og Nóvember


Við pössuðum að vera ekki með Selfoss liðið á þeim mánuðum sem veður er verst (janúar, febrúar, mars). Bryndís og Rúnar halda jólaklúbbnum og við Grímur ætlum að reyna að vera með árlegt pallapartý

Jæja hvernig lýst ykkur á og commentið nú

kv Dögg

sunnudagur, desember 02, 2007

Jólamatarklúbbur 2007

Við höfum ákveðið að matarklúbburinn verður haldinn, ok ég hef ákveðið að matarklúbburinn verður á föstudeginum 14. des.. Við vorum víst ekki alveg sammála um þetta á þessum bæ!!! :) En mér finnst þetta betra að það séu bara allir afslappaðir, komnir í helgarfrí og þurfa ekki að stressa sig heim með börnin eins snemma. En það er auðvitað leiðinlegt að það komist ekki allir, ég held að það verði bara alltaf þannig.
En allavega mæting er kl. 19:10 og allir hafa með sér pakka. Hver einstaklingur kemur með einn pakka og má kostnaður hans ekki vera meiri en 800 kr. og foreldrar sjá um að koma með pakka handa sínum börnum.
Við hlökkum til að sjá ykkur hress og kát og í jólaskapinu að sjálfsögðu :), ef einhver verður ekki komin í jólaskap, þá verður hann örugglega komin í það eftir þetta kvöld. :)
kveðja Bryndís

mánudagur, nóvember 26, 2007

Jólaföndur

Sælar skvísur.

Hvernig líst ykkur á svona í tilefni þess að það eru bara 29 dagar til jóla :) að hittast fljótlega og gera eitthvað jólaföndur? Þið eruð velkomnar heim til mín t.d á fimmtudaginn næsta. Eruð þið lausar þá? Ég ætla að kíkja í föndru á eftir og sjá hvort ég finni ekki eitthvað flott til að mála. Eigum við ekki fullt af málningu ennþá?

mánudagur, nóvember 05, 2007

Jóla jóla :)

Hæ hæ
og takk fyrir síðast, þetta var mjög skemmtilegur laugardagur hjá mér í bústaðnum. Ég var að spá í hvort það væri stefnan hjá okkur að fara á eitthvað jólahlaðborð. Er áhugi fyrir því, ef svo er þurfum við þá ekki að fara að panta? Ég held að það gæti verið gaman þrátt fyrir reyndar að vera mjög blönk þessa dagana :/ Líka bara af því það er langt síðan við höfum hist öllsömul.
Endilega kommentið og látið í ljós ykkar skoðun.
Annars er bara allt fínt að frétta af okkur, við erum stödd í Garpsdal núna en förum heim á morgun. Rúnar var á rjúpnaveiðum og veiddi 9 rjúpur ásamt Jóa hennar Helgu vinkonu. ummm nammi namm við fáum því rjúpur þessi jól eða í kringum jólin.
Við sjáumst vonandi fljótt og heyrumst bæjó Bryndís

sunnudagur, október 21, 2007

Bústaðarferðin

Hæ Stelpur

Vildi láta vita varðandi hvað þið þurfið að koma með. Þið þurfið að koma með sængur og kodda ver en það eru góðar sængur fyrir alla. Og svo auðvitað viðeigandi fatnað fyirir svona ferð. Bús? Hvernig höfum við það ætlar Thelma að koma með rom fyrir Mojito fyrir okkur sem við getum borgað með í. Hver ætlar að redda lime og mintu? Og svo auka bjór eða léttvín, þeir geta bara komið með það sem hver vill...eða hvað. Svo er auðvitað gasgrill, ætlar hver að koma með sinn mat fyrir laugardaginn eða ætlið þið að vera í kjötbraskinu saman? Hver ætlar að koma með DVD spilara? mér er sagt að það sé skart tengi í sjónvarpinu svo þetta verður í lagi. En sjónvarpið verður uppi á lofti, þið verðið bara að æfa ykkur að fara upp og niður stigan í glasi =). Svo er hægt að fara í göngutúra og það eru til ýmis spil til að drepa tíman meðan það er ekki verið að föndra.
Allir að komenta svo ég viti að allir hafi séð bloggið plís.
Ásta

laugardagur, október 13, 2007

INNILEGA TIL LUKKU MEÐ DRENGINN RÚNAR OG BRYNDÍS :-)

Innilega til lukku með litla drenginn ykkar Bryndís og Rúnar, fer í moll á morgun og finn eitthvað fallegt handa honum fyrir sængurgjöf. Mikið rosalega hlakkar mig til að koma heim og knúsa hann í bak og fyrir :-)

Humm að vera með lokaðann munn í sturtu??? Hvað voruð þið að tala um á kaffihúsinu??? Missti ég af einhverju krassandi?? Allavega er rosalega gaman í Belgíu og alveg nóg að gera sem sjúkraþjálfari, og ekki finnst stelpunum slæmt að vera með tvo sjúkraþjálfara fyrir leikina og svona ;-) Eftir leikinn í dag ( sem við unnum 4-0 :-)) komum við á hótelið, sem er bæðevei lítil hola lengst úti í rassi, en þá var búið að brjótast inn í eitt herbergið og heilli rúðu var ýtt inn í herbergið í heilu lagi......jabb glerið er meira að segja ennþá heilt, en öll rúðan lá á gólfinu og gluggakistan brotin og tveimur fartölvum stolið af tveimur stelpum.....og líka ein taska með skólabókum annarar sem er að fara í próf þegar kemur til baka :-( En Egilssaga fannst einhverstaðar hér fyrir utan og band af tölvutöskunni, en restin hefur ekki enn verið fundin. Það komu síðan tvær löggur til að skoða ummerki og svona og var önnur þeirra í skotheldu vesti og báðar voru með skammbyssur og fleiri vopn :-/ Auðvitað eru allir enn í sjokki og setti þetta stóran svartan blett á mjög svo skemmtilegan dag og sigurleik. Nú er einn leikur eftir á þriðjudaginn og á morgun ætlum við öll að fara í eitthvað moll til að versla, en akkúrat á morgun er maraþon inni í Brussel og þá eru allar búðir lokaðar, en fararstjórarnir segjast vita um moll með öllum helstu búðunum í einhverstaðar fyrir utan Brussel. Nú eru Valsstelpur í ágætri stöðu og ef við vinnum leikinn á þriðjudaginn, sem eru ágætar líkur á, þá eru þær komnar áfram í undanúrslitin og verður þá aftur farið út í lok nóvember :-) Maturinn hér er algjört ógeð og lifa stelpurnar eiginlega eingöngu á brauði með nutella, nammi og ávöxtum.....ekki besta næringin samt :-/

Jæja ætla að fara að fagna með krökkunum á barnum á hótelinum, ég kem svo heim á miðvikudaginn, en við getum samt ekki verið með matarklúbb, eins og ég var búin að minnast á við einhverjar fyrir stuttu vegna þess að við þurfum jú að pakka og svo er lokahóf KSÍ næsta föstudag og býst ég við að við förum þangað líka, enda Valur íslandsmeistarar bæði í karla og kvennaliðinu. Við verðum allavega með matarklúbb þegar við erum flutt á nýja staðinn og svo að muna eftir bústaðnum eftir tvær vikur :-)

mánudagur, október 08, 2007

Kaffihús

Hæ stelpur.

Hvernig líst ykkur á að hittast á kaffihúsi í vikunni? Ég ætlaði fyrst að stinga upp á þriðjudeginum en svo er Fjalar að fara á vinnufund þá. Eruð þið lausar á miðvikudagskvöldið?

Kveðja,
Elsa

mánudagur, september 17, 2007

Sumarbústaður 26.-28.október??

Jæja eru ekki allar til í sumarbústaðarferðina?? Var þetta ekki eina helgin sem virtist henta sem flestum og eina helgin sem Dögg er í fríi? Þessi helgi hentar mjög vel fyrir mig og nú er bara að fara að redda bústað. Ásta ætlaðir þú að redda bústað þessa helgi eða ætlaði Dögg að redda læknabústað? Vil endilega að það verði gengið frá því að athuga með það sem fyrst þannig að þessi helgi verði svo ekki akkúrat upptekin ;-)

Jæja hvað er svo að frétta af ykkur? Af okkur er allt gott að frétta, erum búin að skrifa undir kaupsamning á okkar íbúð í Engjaselinu og svo göngum við örugglega frá kaupsamningi á hinni íbúðinni sem við vorum að kaupa okkur í þessari viku :-) Svo fer að styttast í Belgíu ferðina með Jóa og 20 öðrum stelpum......hehehe, jabb ég ætla með Jóa og Valsstelpum til Belgíu á fótboltamót og svo verður maður auðvitað að versla á familíuna föt í HM og svo Belgískt súkkulaði til að geta bakað ekta svona súkkulaðiköku úr almennilegu súkkulaði......nammi, namm!!

Já og svo eignaðist ég lítinn frænda í gær, en Guðni og Jóhanna eignuðust hann í gær þannig að það eru allir lukkulegir þessa dagana og ætla ég að kíkja á hann á morgun :-)

mánudagur, september 10, 2007

opið hús

Okkur Rúnari langaði að bjóða ykkur að koma á Selfoss í kvöld, í smá afgangskökur frá fjölskylduafmælinu sem við héldum í gær í tilefni þrítugsafmælis Rúnars. Fyrst þið fáið ekkert partý strax þá er þetta smá sárabót ;).
Annars var afmælisdagurinn hans mjög vel heppnaður, við buðum fjölskyldum okkar að koma um daginn og fórum svo tvö út að borða um kvöldið á Fjöruborðið á Stokkseyri og fengum okkur dýrindis humar. Svo fórum við í bíó á eftir og sáum Astropíu hér á Selfossi. Við vorum bæði að prófa Selfossbíó í fyrsta skipti og var það bara fínt. Mamma og pabbi hans Rúnars voru svo indæl að bjóðast til að passa fyrir okkur svo við gátum notið kvöldsins bara tvö. Þau voru hjá okkur í nótt og fóru svo í morgun.
Ég vona að ég sjái ykkur sem flest í kvöld, það er alltaf gaman að hittast
kveðja Bryndís

laugardagur, september 08, 2007

JIBBÝ - búin að selja og kaupa aðra íbúð :-)


Jæja var búin að skrifa svakalangt blogg og svo bara hvarf það :-( En allavega þá erum við búin að selja í Engjaselinu og kaupa í Flúðarseli í staðin. Við keyptum 4ja herbergja íbúð, en það er samt ekkert mál að bæta við 5. herberginu ef við þyrftum á því að halda. Svo fæ ég skrapp"herbergi" inni í fataskáp í andyrinu......hehe, jabb nú þegar er búið að útbúa litla "tölvuaðstöðu/skrifstofu" inni í skápnum og er ég nú þegar búin að eigna mér skápinn undir skrappið mitt. Læt hér fylgja með eina mynd af nýju aðstöðunni. En það er samt einn hengur á, við þurfum að afhenda okkar íbúð 1.nóvember, en fáum ekki afhenda hina íbúðina fyrr en 1.desember, þannig að við þurfum bara að setja allt dótið okkar í gám og geyma í mánuð og flytja inn á mömmu og pabba í staðin.


föstudagur, september 07, 2007

Til hamingju með afmælið Dögg

Innilega til hamingju með stórafmælið skvís :) Hafðu það rosa gott í dag og láttu eiginmanninn stjana við þig.

Kveðja,
Elsa

þriðjudagur, september 04, 2007

Sumarbústaðarferð?

Hallú

Takk fyrir síðast, ég skemmti mér allt of vel. Ég er búin að vera að spá í sumarbústaðarferð fyrir okkur stelpurnar. Við Thelma vorum upphaflega að spá í að fara í föndurferð með skrappstelpunum en það er svolítið dýr ferð. Svo eruð þið líka miklu skemmtilegri. Nú erum við orðnar mjög sjóaðar í að föndra saman eftir öll þessi brúðkaup!!!!

Ég get fengið leigða bústaði hjá læknafélaginu sem kosta ekki mikið rétt um 9000 fyrir helgina. Við gætum skellt okkur einhverja helgina í október. Tekið föndurdótið með okkur fyrir þær sem vilja. Það er hægt að fá bústað í Vaðnesi sem er mjög nálægt selfossi, Bryndís gæti þá kannski kíkt smá. Það er sjónvarp, dvd, heitur pottur, gasgrill, vöfflujárn og margt fleira.

Einn bústaður er nóg fyrir okkur stelpurnar en það eru tveir bústaðir á svæðinu ef við viljum hafa strákana með eða hafa þetta fjölskylduferð. Hvað segið þið um þetta?

Er einhver áhugi? Hvaða helgi er góð fyrir ykkur? Hvernig ferð viljið þið hafa?

Kv Dögg

sunnudagur, september 02, 2007

Barnið að reyna að þjófstarta

hæ hæ

Jæja þá er ég búin að prófa fæðingardeildina hér á Selfossi. Ég þorði ekki öðru en að láta kíkja á mig á föstudaginn þegar ég var búin að vera að drepast úr verkjum heima. Þá vildu þær bara ekkert sleppa mér, ég var með verki og samdrætti mjög reglulega meira og minna allan daginn. Svo þegar ég ætlaði loks að reyna að borða eina samloku um kvöldið þá kastaði ég bara upp við fyrsta bita. Maginn var algerlega á hvolfi eins og hann gerir oft í fæðingum. Þær voru alveg í startholunum með að senda mig til Reykjavíkur ef verkirnir myndu versna aðeins. En þeir héldust nú bara svona svipaðir. Ég fékk einnig töflu sem átti að slá á samdrættina en hún virkaði nú ekki neitt, allt hélt bara áfram. En svo fékk ég aftur um kvöldið svolleiðis töflu sem hefur virkað eitthvað. Ég var um nóttina þarna og mér leið strax betur um morguninn. En ég fór í svona rit aftur áður en ég fór heim og þá er ég samt með frekar reglulega samdrætti ennþá, en ekki svona verki með þeim sem betur fer.

Já sem betur fer ákvað barnið að vera aðeins lengur þarna inni, ég er ekki alveg tilbúin strax, það er ekkert tilbúið fyrir það. En nú verður undirbúningur settur af stað strax og það þýðir reyndar líka að ég verð að hægja aðeins á mér og hef ákveðið að hætta bara alveg að vinna núna og dunda mér bara við undirbúning.

Líklega verðum við að fresta afmælispartýinu, ég held að það sé ekki nógu sniðugt að fara að halda eitthvað svaka sukk partý svona rétt fyrir fæðingu ef það verður þá ekki bara komið í heiminn, maður veit aldrei
Ég vona að ég valdi ekki miklum vonbrigðum í hópnum
Við verðum bara í bandi
kveðja
Bryndís

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Takk fyrir síðast!!


Hæ hæ og takk kærlega fyrir okkur á brúðkaupsdaginn, við erum enn í skýjunum :-) Verðum svo að fara að bjóða ykkur heim við tækifæri og sýna ykkur allt sem við fengum.....vorum ekki nema 2 daga að opna allar gjafirnar ;-)


Ég ætla allavega að prufa að láta eina mynd hér inn og svo væri ég líka alveg til í að fá koppý af myndum frá ykkur síðan á brúðkaupsdaginn.


Kveðja frú Thelma og hr Jóhannes :-)

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

föstudagurinn 24.ágúst...

Jæja nú fer aldeilis að styttast í brúðkaupið, aðeins 3 dagar til stefnu. Við fáum salinn milli klukkan 2 og 4 á föstudaginn og verður bara opið hús fyrir þá sem vilja koma og hjálpa til við að skreyta, það er alls ekki skyldumæting, bara koma sem komast eða nenna :-) Það þarf bara að skeyta, en ekki leggja á borð né svoleiðis vesen....hehehe :-) og verðum við með frekar látlausar skreytingar líka :-)

Hvað segið þið annars? Eru ekki allar bara í góðum fýling? Allavega erum við hér heima orðin mjög spennt fyrir laugardeginum og get ég ekki beðið með að sýna ykkur kjólinn, allavega finnst mér hann vera rosalega flottur ;-)

Sjáumst allavega hress og kát næsta laugardag.....munið bara að vera tímanlega í kirkjuna :-)

mánudagur, ágúst 13, 2007

Miðvikudagsbíltúr

Hæ hæ stelpur
Hvernig væri nú að þið skelltuð ykkur á Selfoss á miðvikudagskvöldið, 15. ágúst, ég ætla nefnilega að halda Tupperwarekynningu. Ekki hætta að lesa núna.. Það er alls engin kaupskylda, bara mæta og hittast og skoða :)
Ég veit að þetta er mjög stuttur fyrirvari, en endilega mætið ef þið hafið ekkert sérstakt að gera. Ég bara gleymi alltaf að nefna þetta við ykkur og gleymi svo hvað tíminn líður hratt. Það væri mjög gott ef þið gætuð kommentað um það hvort þið komist svo ég viti hvað ég eigi von á mörgum.
Já kynningin byrjar kl. hálf níu. Ég vonast eftir að sjá ykkur sem flestar
takk takk
kveðja Bryndís

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Vá stelpur!!!

Takk kærlega fyrir gærdaginn, þið gátuð sko sannalega komið mér á óvart ;-) Þetta var mjög skemmtilegur dagur í alla staði, þrátt fyrir búning og að láta gera mig að fífli...hehe, en hvernær hefur maður tækifæri á að gera svona hluti nema á sjálfan gæsadaginn og svo í dimmesion :-) Maturinn var náttúrulega bara mjög góður, bæði hádegis- og kvöldmatur, og svo var kakan bara snilld....hehehe, verð bara að fá að sýna Jóa hana, en ég veit bara ekki hver er með hana ;-) Nuddið á Nordica spa var rosalega gott og svo var náttúrulega bara frábært að uppgötva svona góðan Mohito á hótelinu......veit allavega hvar ég verð eftir brúðkaupsnóttina og alveg þar til að ég og Jói höldum heim áleið ;-) Vá og svo var bara geggjað að prufa magadans og skemmti ég mér bara konunglega á Nasa ballinu um kvöldið að prufa "nýju danssporin" sem ég lærði um daginn ;-) Já mikið rosalega var gaman á ballinu.....hef bara sjaldan skemmt mér svona vel á einu balli, verðum bara að hafa þetta árlegt hér eftir :-)

Jæja hef þetta ekki lengra í bili, endilega látið í ykkur heyra og ég held áfram að undirbúa brúðkaupið og reyna að láta munnangurinn lagast....ái hvað þetta er ekki gott :-(

mánudagur, júlí 30, 2007

humm

kom ekki langa bloggið mitt :-(

Brúðkaupsundirbúningur

Jæja fyrst að enginn nennir að blogga lengur, þá ætla ég bara að þreyta ykkur með smá brúðkaupsbloggi í staðin ;-) Undirbúningur gengur bara mjög vel, það er næstum allt komið, en á bara eftir að fá svör frá nokkrum ættingjum og vinum um það hvort að þeir komast eða ekki. Ætli maður verði ekki bara að hringja í fólkið í kvöld :-) Eins og staðan er í dag þá eru 119 eftir á listanum, en af þeim eiga allavega 10-15 eftir að svara. Á morgun ætlum við svo að hitta konuna sem er með salinn okkar og þá vil ég helst vera með endanlega tölu um fjölda upp á mat og svoleiðis. Ef ég er ekki með endanlega tölu, þá eru 10+ bara einfaldlega of mikill peningur til að láta henda afgöngum í ruslið :-( Ég ætla svo að hafa samband við þær sem geyma brúðarkjólinn minn eftir verslunarmannahelgina og láta laga hann til. En fyrir um mánuði síðan var hann of þröngur.........en núna erum við búin að vera í átaki, ég í Betra form námskeiði í Hreyfingu og svo 2x aukalega á lyftingaræfingu með Jóa (samtals 5x í viku) og gerum við alveg geggjað mikið af kviðæfingum og vonast ég til að kjóllinn sé ekki of þröngur lengur......krossa allavega putta og tær þar til eftir helgina....hehe!! Einnig erum við nær alveg hætt að borða sælgæti, fékk mér aðeins lakkrís og súkkulaðirúsínur um helgina í útilegu, en annars er ekkert svoleiðis keypt lengur. Krakkarnir og hann Jói eru líka búin að fá sín föt og skó og á ég aðeins eftir að finna litla bastkörfu fyrir Söru Daggrós og ætlar ein kona sem ég þekki að skreyta hana fyrir okkur, þannig að ef þið lumið á lítilli bastkörfu og eruð til í að lána hana, þá þigg ég það með þökkum :-) Hann Hemmi vinur okkar ætlar að panta brúðakökuna okkar, þannig að þá er allavega einu færra að skipuleggja ;-) Við eigum líka eftir að finna okkur stað til að læra brúðarvalsinn, og ef þið reyndu vitið um góðan stað þá endilega látið mig vita líka......það eru jú ekki nema um rúmar 3 vikur í stóra daginn og ekki seinna vænna en að fara að læra að dansa til að gera sig nú ekki að algjöru fífli fyrir framan alla vini og ættingja......hummm!! Ég er að fara að leggja lokahönd á borðmerkingar í vikunni, svona þegar ég veit heildartölu í brúðkaupið, en það er samt mikið tilbúið af því, hún Ólöf var svo elskuleg að hjálpa mér eitt kvöldið að líma og dúllast með það, þannig að núna þarf aðallega að prenta út og klippa til nöfn og líma á herlegheitin ;-) Ég er enn að vesenast með borðskreytingar og brúðarvönd, en ætla að fara í eina enn ferðina í blómabúðir og svona til að fá hugmyndir og fara að panta vöndinn og barmblóm á maka og svaramenn......og ekki má gleyma litla prinsinum mínum honum Rúnari Erni heldur ;-) Svo er ég búin að kaupa skó á allt liðið og erum við að reyna að ganga þá aðeins til til að fá nú ekki fótasár eftir skóna á sjálfum brúðkaupsdeginum. Nú er allt skart komið hjá mér, nema armband og kannski eitthvað sætt úr sem passar með. Ég verð með perluhálsmen (eina perlu og svo silfurkeðju, á samt eftir að kaupa hana) og svo perlu og steina eyrnarlokka, en hef ekki enn fundið armbandið. Frænka mín ætlar að farða mig og hennar fyrrverandi tengdadóttir ætlar að greiða mér. Svo ætla ég að gera svona gestabók þannig að allir standi inní ramma sem þeir halda á og svo verður tekin mynd og verð ég búin að gera pláss fyrir mynd og nöfnum við hliðina á og myndi ég setja myndirnar inn þegar búið væri að framkalla þær, en Hanna vinkona mín ætlar að gera þetta á meðan beðið verður eftir okkur. Þannig að allir hafi nú nóg að gera á meðan beðið verður. Ég á bara eftir að finna ramma sem er nógu stór og ætla ég að gera það í vikunni.

Hvað er svo annars að frétta af ykkur? Ólöf hvernær komið þið heim aftur? En þú Ásta skvís, hvernig gengur með vinnuleit? Ertu kannski bara komin með vinnu? Eru rigningar ekkert að hætta í London þessa dagana?

Jæja er að stelast í vinnutíma, endilega látið í ykkur heyra.

Adios, Thelma tilvonandi brúður :-)

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Saknar einhver flíspeysu??

Hæ hæ
þetta er svört flíspeysa sem hefur hugsanlega orðið eftir þegar pallapartýið var eða afmælið hans Geirmundar. Er ekki einhver sem kannast við þetta og saknar peysunnar sinnar. Látið mig endilega vita.
En það er bara allt fínt að frétta af okkur, það er orðið langt síðan ég hef hitt ykkur. Það eru náttúrulega allir út um allt, Ólöf í Boston, Sigurveig í Köben og Dögg á Spáni og ég var nú bara út í eyjum, Vestmannaeyjum, það eru nú hálfgerð útlönd :)
En nú er ég í Garpsdal og verð þar eitthvað á meðan Rúnar er að hjálpa pabba sínum að vinna í húsinu. En við ætlum reyndar að stinga af um helgina og fara í útilegu með Helgu og Jóa einhversstaðar á Vestfjörðum.
Jæja heyri frá ykkur síðar
kveðjur úr sveitinni
Bryndís
Hei Ólöf til hamingju með litlu frænku þína, ég var bara að sjá á netinu í dag að hún væri komin í heiminn, maður er hættur að frétta hvað er að gerast í fjölskyldunni nema í gegnum netið.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Svona var ég

http://www.youtube.com/watch?v=EhRKfxw-6us


Munið þið að ég sagði ykkur frá námskeiðinu sem ég fór á fyrir tveimur helgum síðan, ef þið klikkið á linkinn þá sjáið þið hvernig ég var allan tíman. Svona var þetta 15 min fresti svo hlustaði maður á kallin eða gerði æfingar. Þetta var bara eins og á tónleikum eða eitthvað mæli með þessu. Er svo á leiðinni á annað námskeið í nóvember.
Annars ekkert annað að frétta.
Kveðja Ásta

sunnudagur, júlí 01, 2007

Við leitum að bíl!!!!

Bílnum hans tengdapabba var stolið um helgina. Tekinn fyrir framan Bjarnabúð í sveitinni. Lögreglan hefur ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn. Við leitum því á náðir allra vina og ættingja að hafa augun hjá sér. þetta er ársgamall Toyota Yaris með skráningarnúmer ZT-522. Þegar þið rúntið um bæinn eða farið í gönguferð...... horfið gagnrýnum augum á allar bláar Toyotur og ef þið sjáið bílinn látið lögreglu vita. Hér er mynd af eins bíl.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég er að hugsa um

að breyta útliti síðunnar. Þið verðið bara að fyrirgefa ef eitthvað dettur út. Ég er bara orðin svo hundleið á þessum rauða og gráa lit á síðunni.

Vona að þið verðið sáttar. Og eftir þessa breytingu þá verður ekkert mál að breyta útlitinu aftur og aftur og aftur án þess að tapa nokkrum breytingum af okkar hálfu.

föstudagur, júní 15, 2007

Pallapartý



Í samráði við nágranna mína hérna í Tjaldhólunum ætla ég að athuga stemmingu fyrir pallapartýi. Dagurinn væri laugardagurinn 23 júni. Þetta verður djamm partý og planað að allir sem vilji gisti hjá okkur selfyssingum. Það er eitt aukaherbergi í Tjaldhólum 5 og tvö aukaherbergi í Tjaldhólum 32. Svo er einn tjaldvagn sem hægt er að nota líka. Nóg er plássið!!!!

Boðið yrði uppá fordrykk og kvöldverð, sem og morgunverð. Svo yrði drukkið og djammað eins lengi og viljað er.

Þetta er barnlaust partý. Nú langar mig að heyra hvort þið hafið einhvern áhuga og hverjir myndu mæta. Ef það myndast góð stemming þá kýlum við á þetta!!

Kveðja Dögg

miðvikudagur, júní 06, 2007

Sjitt

Ég ýtti óvart á enter..
Allaveganna: lítið að gerast. Ásta farin, ég var að útskrifa 10. bekkinn áðan og fékk voða sætt faðmlag frá einni sem var svo þakklát því ég hjálpaði henni í stærðfræði :) Svo fékk ég nokkur fleiri faðmlög frá stelpunum og strákarnir tóku í hendina mína. Voða gaman að þessu.
Hvað meira... nú er öll kennsla búin þannig að það er ekkert að gera nema taka til í kennslustofunni og dúllast eitthvað. Sumarfríið byrjar svo í næstu viku, íha. Og já, það eru rúmlega 3 og hálf vika þar til ég fer til Boston :)

Sendi ykkur hér link á lag sem ég þoldi ekki þegar ég heyrði það fyrst í fyrra en get hlustað endalaust á það núna. Kreisí :)

http://www.youtube.com/watch?v=U-shZs2I4E4

Vona að þetta virki. Þið verðið bara að gera copy/paste. En ég mæli með þessu lagi, ekta partýlag.

Lítið að gerast.

Er að edita þennan póst (já, mér leiðist að hanga svona ein þannig að internetið er orðinn besti vinur minn :)

Fékk heldur betur tónleikaflashback þegar ég hlustaði á þetta:



Og þetta er svona þiðeruðfíflogviðhlæjumaðykkur vídeó sem ég hef ekki séð áður. (funny failed stunts)

þriðjudagur, júní 05, 2007

Kveðja

Sælar stelpur ætlaði bara að kasta kveðju á ykkur áður en ég færi. Sjáumst allaveganna í brúðkaupinu hennar Thelmu...eða fyrr ef ekkert fer eins og ég vil. Takk fyrir síðast sem voru á reunioninu, þetta var bara fínt þrátt fyrir að við vorum bara fimm úr mínum bekk. Við Ólöf stóðum okkur best í djamminu þar sem við vorum síðastar heim =).
Bless bless
Ásta

sunnudagur, maí 27, 2007

Franska súkkulaðikakan....

....sem Ásta sæta fékk í afmælinu sínu :-) Hér kemur svo uppskriftin

Franska súkkulaðikakan
4 egg
2 dl. sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði (gott að blanda saman 70% og svo venjulegu)
1 dl. hveiti

egg og sykur hrært vel saman. Smjör og súkkulaði brætt saman. Hveitið sett útí eggin og sykurinn og svo súkkulaðinu blandað rólega saman við.

kakan á að fara í vel smurt tertuform (kringlótt) sko stendur ekki lausbotna. Bakist í 30 mín við 170 gráður hita. Kakan á að vera blaut í miðjunni.... afgangurinn er bara bræddur saman og sett yfir einsog krem... kakan má samt ekki vera of heit á meðan...okí dókí... allir sáttir

Súkkulaðibráð:
70 g smjör
150 g suðusúkkulaði (nota 70%, en það má líka nota venjulegt)
1-2 msk. síróp

Allt brætt saman og svo sett ofan á kökuna

Bon appetite!!

laugardagur, maí 26, 2007

Bara smá til að drepa tímann

Var að gera þetta áðan. Ákvað að setja þetta inn fyrir ykkur að prófa, fljótlegt, einfalt og gaman að lesa niðurstöðuna.

Og gaman að lesa bloggið frá Dögg. Allir að kommenta, takk.

föstudagur, maí 25, 2007

Mikið að gerast

Hæ stelpur

Vonandi er voða gaman í afmælisboðinu hennar Ástu. Ég er ekkert smá svekkt að ég komst ekki. Eins og þið eruð búnar að heyra er mjög mikið að gera í alls konar félagsmálum þessa helgina hjá okkur. Við verðum því mikið á ferðinni í Reykjavík og hittum ykkur á sunnudagskvöldið hjá Sigurveigu.

Við erum búin að fá 800 myndir frá ljósmyndaranum. 200 myndir frá bróður mínum og 1000 myndir frá bróður hans Gríms. Við erum að vinna í því á fullu að finna okkur myndir til að framkalla en þetta er mjög ruglandi.... við erum t.d með 14 nærmyndir af Séra Ingileif...... og hvaða mynd eigum við svo að velja!!!!!!! Við erum samt á því að myndin sem Kristinn birti á www.andmenning.com sé ein af þeim bestu af okkur tveim.

Fyrsta verk Gríms sem eiginmanns var að finna annan bíl. Við erum að kaupa Mitsubitschíííííí Pajero jeppa. Áregerð 2001, voða flottur. Þetta var nú ekki á planinu fyrr en í haust en við fengum þennan á góðu verði svo við skelltum okkur á hann. það verður þá bara hafragrautur í öll mál í tvo mánuði.......Opel Corsan hefur verið seld til Odds yngri bróður hans Gríms. Hann ætlar að prufa nýja ökuskirteinið sitt á henni...... Ég verð nú að segja að það er góð tilhugsun að vera ekki að keyra Corsuna yfir Hellisheiðina tvisvar á dag annan veturinn í röð.

Næstu helgi erum við að fara til Kaupmannahafnar. Ég var að skipuleggja ráðstefnu sem verður haldin þar föstudag og laugardag. Grímur þekkir fólkið sem er með mér í nefndinni ágætlega og við ætlum svo að slappa aðeins af líka.

Hvað er nú að frétta af ykkur? Og ekki gleyma að það er líka hægt að nota bloggsíðuna undir tilkynningar,...... eins og til dæmis um hittinga!!!!!

fimmtudagur, maí 17, 2007

Myndir 12.05.07





Jæja nýgiftu hjón...

... TIL HAMINGJU! Nú er ég mjög forvitin hvernig lífið hefur leikið við ykkur síðan á laugardaginn :) Og já, veislan var æðisleg, ææææðislegur matur, geggjaður staður, gott rauðvín, skemmtileg tónlist til að dansa við, þið tvö stórglæsileg og húrra fyrir útgöngumarsinum úr kirkjunni :) Þetta var semsagt mjög gaman.
Og eitt að lokum: hvað fenguð þið svo í brúðargjöf? Við vorum tvær að hugsa um að stela kannski svona einum pakka, þetta leit allt svo vel út.
Svo skora ég á einhverja að setja inn mynd, mínar myndir eru ekki nógu góðar.

mánudagur, apríl 30, 2007

Takk fyrir mig

Hæ rúsínur

Vildi bara þakka ykkur fyrir alveg frábæran dag á laugardaginn. Ég skemmti mér alveg stórvel. Það var bara allt æðislegt. Þegar við vorum komin upp á hótel um nóttina þá langaði mig ekkert að fara að sofa því ég vildi helst að dagurinn yrði ekki búinn!!

Þið eruð algjörar perlur, knús á ykkur allar.

PS: Grímur biður ekki fyrir eins kveðjur til strákanna, hann er með glóðarauga á báðum og er marinn um allan líkamann. Hann vildi bara segja: Bíðiði bara!!!!!

Kveðja Dögg

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar!!!

Jæja girls, hvað segið þið svo gott?? Af okkur er bara allt gott að frétta, allir í sumarskapi og erum við svona að fara að tía okkur út í sólina......ég man bara ekki eftir að það hafi áður verið sól og "blíða" á sumardaginn fyrsta ;-) Skulum bara vona að það haldist út daginn. Það er nú reyndar frekar kalt núna, enda klukkan ekki nema 10:25, en vonandi fer að hlýna í dag vegna þess að við ætlum bæði í skrúðgöngu hér í hverfinu klukkan 13:00 í dag og svo í fjölskyldu og húsdýragarðinn með krakkana og jafnvel draga mömmu og pabba með :-) Annars hef ég nú ekki mikið að segja og er þetta því hálf tilgangslaust blogg, en blogg engu að síður.....hehe! Hvað ætlið þið svo að gera í dag, annað en að hanga í tölvunni eins og ég er að gera núna B-) Jæja hef þetta ekki lengra í bili.

"Sól sól skín á mig, ský ský burt með þig.......lalalalalala........sól sól skín á mig"

mánudagur, apríl 16, 2007

Gjörið þið svo vel

Ok þið vilduð blogg og ég læt undan, jú jú Dögg ég get alveg bloggað á tölvuna mína. Málið er bara að það er ekkert merkilegt að gerast sem mér finnst ástæða til að blogga um. En þið kölluðuð þetta yfir ykkur og þá er sko eins gott að þið lesið þetta.
Það er svo sem margt að gerast hjá honum Geirmundi mínum þessa dagana svo það er bara best að ég segi frá því. Hann er að verða svo stór strákur að hann er bara gott sem hættur að nota bleiu. Hann er bara með hana á nóttinni. Hann segir bara eiginlega alltaf til, segir reyndar kúka þó hann þurfi bara að pissa en það er betra allavega að hann segi eitthvað. Þetta gengur ótrúlega vel. Svo er hann hættur að nota rimlarúmið sitt og er komin í venjulegt rúm. Svo það er bara allt að gerast hjá stóra stráknum mínum sem er líka að verða stóri bróðir :)
Það er búið að vera nóg að gera í vinnunni hjá mér og er ég núna að fá einn starfsmann til mín sem er frá Ghana, hún verður hjá mér í mánuð á meðan ein fer í veikindafrí. Það verður örugglega bara gaman. En nú ætti ég eiginlega að hætta þessu bloggi því ég er að taka foreldraviðtöl á morgun og á eftir að undirbúa mig smávegis og er alveg að fara að fá stresskast fyrir það.
Þá skora ég bara á ykkur hinar að halda áfram að blogga. Ég hlýt að hafa eitthvað merkilegra að segja næst.
kveðja Bryndís

sunnudagur, apríl 15, 2007

Koma svo..


Vid viljum blogg, vid viljum blogg, vid viljum vilko. Eg er ekki buin ad komast allt of mikid i tolvuna undanfarid en er ad nyta taekifaerid nuna og aetla ad skella inn tveimur merkilegum fyrirbaerum. Fyrst er thad mynd ur stelpupartyinu goda. Seinna er sma klipps af Kylie a opnunarhatid nyrrar H&M budar i Tokyo eda Sjanghae. Thad er greinilegt ad fyrirtaekid er ad graeda asskoti vel. Aetli vid Islendingar holdum ekki uppi storum hluta af bisnessnum med kaupgraedgi okkar i utlondum. Eg meina, hver hefur ekki farid i H&M?
Svo langar mig svo ad sja hvort thad tekst hja mer ad setja inn beinan link a video....


mánudagur, apríl 09, 2007

Þið vilduð blogg

Bara til að blogga smá. Við erum búin að eiga mjög náðuga páskahelgi. Við fórum þrisvar sinnum í mat í sveitina og einu sinni í Barðavoginn. Við fengum bróður minn og fjölskyldu í mat á skírdag og svo komu gestir í kaffi. Þess á milli er bara búin að vera afslöppun og smá barátta við kvef sem neitar að fara og neitar að breytast í almennileg veikindi (þoli ekki svoleiðis, það vill oft endast svo vikum skiptir)

Brúðkaupsundirbúningur gengur hægt en örugglega. Við höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum með tilkynningar um komu. Eins og er eiga 90 manns eftir að láta okkur vita hvort þau muni koma eða ekki og það eru aðeins 3 dagar eftir af frestinum sem við gáfum. Þannig að við sjáum fram á langa setu við síman það sem eftir er vikunnar, því það er ekkert annað í stöðunni en að hringja bara í liðið. Ég vill samt taka fram að vinir hafa staðið sig mun betur en ættingjar.. eins og staðan er í dag hafa 3 einstaklingar úr móðurfjölskyldunni minni tilkynnt komu og 2 úr föðurfjölskyldunni....Svo Thelma og Jói ég mæli með því að hafa þessa setningu í boðskortinu í stærra letri og í öðrum lit en allt annað í kortinu.

Það berast hins vegar fréttir af Hótel Geysi að það séu aðeins 2 herbergi óbókuð þessa nótt þannig að einhverjir hljóta að ætla að mæta!!!!

Harpa sem er kærasta bróður hans Gríms (Rúnars) er búin að vera mjög hjálpsöm. Hún ætlar að búa til brúðarvöndinn og skreyta bílinn og var búin að hlaða niður fullt af myndum af netinu fyrir mig til að skoða. Einnig minnti hún mig á nokkur atriði sem ég var ekki búin að hugsa fyrir eins og til dæmis skartgripi (ég var alveg búin að gleyma því) og að fara eftir hefðinni og vera með eitthvað nýtt, eitthvað blátt, eitthvað lánað og eitthvað gamalt....ég þarf aðeins að hugsa hvernig ég ætla að útfæra það.

Allt annað hlýtur að fara að koma en það er bara ótrúlegt hvað það eru mörg atriði sem þarf að hugsa fyrir... og alltaf virðist eitthvað geta bæst við..... Ég er alveg farin að skilja af hverju það er til sér stétt af fólki sem hefur það að atvinnu að skipuleggja brúðkaup...

Kveðja Dögg

laugardagur, mars 24, 2007

föstudagur, mars 23, 2007

Stelpudjamm 30.mars.....

Jæja þá er komið að því, fyrst að við komumst ekki í sumarbústað næstu helgar ákváðum við stelpurnar að hafa í staðin stelpudjamm föstudaginn 30.mars. Endlega látið vita hvort að þið háksmeðlimir komist eða ekki.....ps. við ætluðum hvort eð er að fara í sumarbústað þennan dag, þannig að það er engin afsökun tekin gild um að vera að gera eitthvað annað ;-)

Endilega látið ljós ykkar skína og segið hvort þið hafið áhuga eða ekki.

ps. Ásta beib er komin til landsins yfir páskana og er það tilvalið tækifæri að sletta aðeins úr klaufunum með henni og fara jafnvel niður í bæ.....jibbý jey!!! Allavega er ég alveg til :-)

laugardagur, mars 17, 2007

Snjór og vetur

Mikið er ég orðin þreytt á þessum vetri, í mars vill maður sjá að það sé hætt að snjóa og farið að vera hlýrra úti. Því finnst mér þessi fallegi jólasnjór, sem nú kyngir niður, vera hálfgerð tímaskekkja.

Eins og vonandi allir hafa tekið eftir þá erum við búin að senda út boðskortin. Flest allur undibúningurinn er nú komin á gott ról eftir góða törn núna í mars. Ég var í fríi frá vinnunni í síðustu viku og reyndi bara að hafa það gott. Las nokkrar bækur og fór á kaffihús og fleira í þeim dúr. Ég fór líka að prufa brúnkumeðferðina sem ég ætla í tveimur dögum fyrir brúðkaup. Ég er því alveg eins og ég hafi verið að koma frá sólarlöndum... rosalega gaman en því miður skammvinnt.

Við drifum í því að klára skattskýrsluna. Þetta verður minna mál með hverju árinu sem líður. Nú gat maður farið inn í einkabankann og látið flytja allar upplýsingar varðandi eignir á reikningum og vaxtartekjur sjálfkrafa inn. Þetta er því orðið alveg idiotproof og þrátt fyrir að þetta væri kaupár fasteignar og bíls þá vorum við innan við klukkustund að gera bæði framtölin. Munið að það er skiladagur á miðvikudaginn!!!!

Sigurdís vinkona kom í mat til okkar í hádeginu til að ræða veisluna. Hún verður veislustjórinn okkar nr 1 og erum við að vinna í því að fá annan með henni því að sá sem ætlaði að sinna því datt út vegna þess að hann er í prófum um þetta leiti. Við bjuggum til fínan pastarétt og fórum yfir aðalatriðin varðandi veisluna sem við vorum að mestu búin að útfæra í samráði við Mábil á Geysi.

Við vorum að spá í næsta matarklúbb. Samkvæmt skemanu eiga Elsa og Fjalar næsta klúbb og svo erum við Grímur á eftir þeim. Við vorum jafnvel að spá í að brjóta útaf venjunni þegar kemur að okkur og bjóða í hádegismat... bara til að prufa eitthvað nýtt... og hafa þetta þá einn af þeim klúbbum þegar börnum er boðið með. Stefnum náttúrulega á mjög gott veður þannig að stærri krakkarnir geti farið út á pall að leika sér.

Hvernig lýst ykkur á þetta allt saman? Við getum líka alveg haft kvöldmat eins og venjulega ef það henntar betur.

Kveðja Dögg

miðvikudagur, mars 07, 2007

SUMARBÚSTAÐUR????

Jæja nú verðum við að fara að negla niður dagsetningu fyrir sumarbústaðinn. Elsa var að spá í að halda upp á afmælið hennar Evu Rós 24.mars, vegna þess að hún er lasin núna litla skinnið :-( En hvernig var það ætluðum við að fara í sumarbústaðinn þá, eða fresta því um eina helgi?? Elsa vissi t.d. ekki af því að við vorum að spá í þessari helgi og vil ég endilega að við komumst allar með. Hvað segið þið?? Sigurveig, endilega láttu ljós þitt skína í þessu máli fyrst að þú ert að sjá um að redda bústað ;-)

þriðjudagur, mars 06, 2007

Super Mario Bros

Her er sma pianosnilld fyrir okkur sem spiludum stundum Super Mario Bros i den.

http://www.youtube.com/watch?v=IBV-fqRkNy8

Langadi lika ad vita hvort Dogg hafi fengid invitation?

Ég komst á bloggið

Hæ stelpur

Takk fyrir að senda mér invite Ólöf. Ég skil ekki hvernig þessi stelpa sem ég er að reyna að koma inn á NFYOG bloggið er ekki að fatta þetta. Hún hlýtur að vera eitthvað skrítin í höfðinu!!!!! Gæti ekki verið einfaldara..

En fyrst ég er að blogga er ekki ágætt að segja nokkrar fréttir. Við Grímur erum í hámarks-brúðkaupsundirbúnings fasa núna. Erum að vinna í að klára boðskortin og munum reyna að senda þau 12 mars nema Föndra klikki alveg á kortunum sem okkur vantar.

Við eigum fund með Hótel Geysi í fyrramálið. Funduðum með organistanum um helgina og erum búin að finna söngvara fyrir kirkjuna (eigum eftir að negla það niður samt). Við fáum félaga okkar, sem ætlar að baka kökuna, í mat til okkar núna á sunnudaginn.


Það er í ótal horn að líta og vonandi fer þetta nú að smella saman.

Í morgun fór Toyotan okkar í þjónustuskoðun og ég fékk Toyotuna hans tengdapabba lánaða í staðin. Nýr bíll nota bene!!! Þegar ég setti bílinn í gang var hann alveg ljóslaus og ég þurfti að keyra í myrkrinu til Reykjavíkur með háu ljósin á því hin virkuðu ekki. Ég var náttúrulega vinsælust í morguntraffíkinni var blikkuð svona 380 x á leiðinni. Ég fór svo eftir vinnu og lét laga ljósin......

Í dag var ég svo í því verkefni að skrifa inn konur sem eru að fara í fóstureyðingu... svo sem allt í lagi og gott mál hjá þeim að fara þessa leið ef þeirra aðstæður leyfa ekki barneignir. Mikill hluti af þessu viðtali er að fyrirbyggja aðra þungun með því að sjá til þess að þær hafi góða getnaðarvörn á eftir. Í dag voru þær bara ekki að fatta þetta.... hver á eftir annarri vildu fara aftur í sama farið og þær voru áður og ég var að reyna að fá þær til að íhuga eitthvað annað sem ekki er eins mikið háð mannlegum breyskleika. Sem dæmi má nefna sprautuna, lykkjuna eða stafinn en þær höfðu bara ekki áhuga á þessu....amk ekki í dag. Oftast nær eru þær svo mótiveraðar.


Annað hef ég ekki að segja nema það að ég er að fara í frí næsta föstudag og verð í fríi í 9 daga jeiiiiiiii

Kveðja Dögg

mánudagur, mars 05, 2007

Jájá.

Jæja, ætlaði bara að þakka fyrir komuna á laugardaginn. Það var mjög gaman að fá ykkur, hegðun til fyrirmyndar og Sequence er ekki leiðinlegt spil. Jói vann tvisvar, ég tapaði tvisvar og Thelma fékk alla gosana. Dögg og Grímur tóku í eitt spil, Óli varð mjög beittur, Sigurveig stóð sig eins og hetja og Ruben spilaði með í rólegheitunum.
Semsagt mjög gaman og boltinn nú látinn rúlla yfir til Elsu og Fjalars.

fimmtudagur, mars 01, 2007

miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Stuttur fyrirvari

Er möguleiki á að einhver komist i matarklúbb núna á laugardaginn?

sumarbústaður??

jibbý ég get bloggað aftur :-) En hvað segið þið um sumarbústaðinn? Var búið að finna dagsetningu?

mánudagur, febrúar 26, 2007

Prufa

Halló halló
er bara að prufa hvort þetta virkar

Jæja, komið á nýtt form

Ég var að breyta síðunni okkar yfir á þetta google form og nú er síðan komin á mitt hotmail. Mér sýndist Sigurveigarblogg og Daggarblogg fylgja Háksblogginu þannig að þið verðið að búa ykkur til nýtt, myndi ég halda, ef þið ætlið að blogga undir eigin nafni. Bryndís, þú verður líka að búa þér til blogg og einnig Ásta. Mig langar nefnilega til að halda hotmailinu mínu út af fyrir mig, sorrí haha.

Þegar þið eruð búnar að búa til ykkar bloggvesen þá látið þið mig vita svo ég geti invitað ykkur yfir á þessa hérna farsælu síðu.

Líst vel á sumarbústaðaumræðuna og Thelma, til hamingju með brúðarkjólinn :)

Test 1 test 2

Ætla aðeins að sjá undirskriftina hérna fyrir neðan..

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Bíóíóíó

Sælar.
Það voru vangaveltur um það hvort áhugi væri á hópferð í bíó? Hugmyndin er Dreamgirls núna klukkan 8 á föstudaginn.
Strákarnir fá það hlutverk að vera heima með börnin haha.

Hvað segist?

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Ung í anda



Eruð þið ekki að lesa kommentin eða hvað var ég ekki enda við að segja að ég vildi fá svona kveðjur í sms formi þar sem ég er ekki tengd netinu. Ég hélt auðvitað að engin mundi eftir stórafmælinu mínu og þess vegna er ég mjög súr á svipin á þessari mynd, með fullt af kökum...en ekkert sms frá uppáhalds vinunum.
Hvað um það, mér hefur ekki liðið betur, I feel soooooo young!!! Ég fékk digital myndavél frá mömmu og pabba þannig getið þið fengið mynd af mér svona fljótt =) Ég fékk líka rauðan koll úr habitat frá fríðu. Síðan fékk ég pening frá Gústu frænku og fór út að borða fyrir hann á franskan veitingastað ætlaði að fara á brasilískan stað en hann var of dýr fyrir þau hin, en þessi franski var bara mjög fínn. Svo fengum við okkur Mojito á kúbverskum bar. Hér er ég að borða risotto á franska veitingastaðnum.




Kveðja Ásta

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

*30 ára*

Til hamingju með STÓRafmælið elsku Ásta okkar!



Hafðu það ofsalega gott í dag

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Matarklúbbur á nýju ári :o)


Jæja stúlkur mínar.
Hvað segið þið um að vera svolítið duglegri að halda matarklúbbinn í ár ;o)
Hastala vista beibís :o)

mánudagur, janúar 15, 2007

Er komið að því???????


Beljumynd :)

Ætlaði að setja einhverja nýja mynd af ykkur en komst að því að þetta er nýjasta hópmyndin sem ég á :/ Ég þarf að vera eitthvað duglegri með vélina.

En hvað segið þið um stelpudjamm næstu helgi ???
Langt síðan við höfum gert eitthvað þvíumlíkt. Og þá get ég tekið myndir :))))