föstudagur, desember 31, 2004

Gleðileg jól og bráðum gleðilegt nýtt ár!!!

Af okkur er bara allt gott að frétta, erum búin að hafa það alveg rosalega gott yfir hátíðirnar og enn á það eftir að batna þegar við borðum kalkún í kvöld heima hjá mömmu og pabba.....nammi, namm....og skjótum upp rakettum!!

Ég er að fara til Danmerkur klukkan 8 í fyrramálið, þannig að ekki verður mikið úr geðveiku partýi þetta árið, en þeir hákar sem verða í bænum um áramótin geta komið yfir til okkar í smá teiti....eða frekar rólegt teiti.....eftir klukkan 1 í nótt ef það er áhugi fyrir hendi. ...og svo má ég líka ekki drekka áfengi næstu mánuðina....hehehe!!!

Váááá.....það er geðveik snjókoma úti núna, eitthvað sem vantaði á aðfangadag.....en betra er seint en aldrei. Vona bara að það verði búið að stytta upp í nótt þegar maður fer að sprengja upp flugeldana....og líka þegar ég á að fara að fljúga á morgun.

Jæja ætlaði bara að halda síðunni gangandi.

Sjáumst hress annað hvort í kvöld eða í partýi hjá Ólöfu og Ruben á nýju ári!!!

Gleðilegt ár allir saman!


þriðjudagur, desember 21, 2004

Þetta er allt að koma...

Jæja, þarf bara að þvo á mér hárið, borða og keyra svo upp í Smáralind til að klára jólagjafainnkaupin. Reyndar er ég í dálitlum vandræðum því ég veit ekki alveg hvað ég á eftir að kaupa margar gjafir... er ekki viss hvernig pakkamálin standa á milli ákveðinna einstaklinga. Ætli að ég verði ekki að komast að því allaveganna fyrir aðfangadag.
Settum upp jólatréð í fyrrakvöld þar sem við vildum ekki skilja það eftir fyrir utan ef einhverjum fingralöngum einstaklingum dytti í hug að redda sér ódýru jólatréi. Við erum samt ekki búin að skreyta það og þó svo ég væri búin að því þá myndi hvort sem er enginn taka eftir því þar sem þetta tré er aðeins stærra en ég hélt það væri þegar að við skoðuðum það í Blómaval... Sjitt, nú verð ég bara að fara að kaupa jóltrésskraut og 200 pera ljósaseríu!
Hvernig gengur annars hjá ykkur? Er allt tilbúið fyrir jól??
Kv. ólöf

þriðjudagur, desember 14, 2004

Jólamatarklúbbur

Jæja þá er komið að jólamatarklúbbnum í ár.
Eins og í fyrra þá ætlum við Rúnar að halda hann og bjóða ykkur upp á ekta hangikjöt. Mæting er sem sagt hjá okkur á sunnudaginn 19. desember og vonandi geta allir mætt. Ef einhver kemur ekki væri mjög gott að vita það. Er ekki bara best að byrja í fyrra lagi og mæta klukkan fimm, það er náttúrulega vinna hjá flestum daginn eftir. Svo höldum við litlu jólin eftir matinn og opnum pakkana :) Ég man ekki hvað hámarkið var á gjöfunum í fyrra en það var allavega einhver miskilningur, sumir komu með tvo pakka og aðrir einn. Eigum við ekki bara að hafa það þannig að hver og einn komi með pakka. Þannig að það eru tveir pakkar á par og einnig einn pakki fyrir hvert barn. Hámark fyrir hvern pakka er 500 - 800 kr. þannig að hámarksupphæð fyrir par er ca. 1000-1600 kr. Hvernig líst ykkur á þetta svona?
kveðja Bryndís

föstudagur, desember 10, 2004

Til hamingju með daginn...

Ég vil bara óska Thelmu hjartanlega til hamingju með sinn heittelskaða. Það hefði verið gaman að geta kíkt í veisluna en þar sem það er próf á morgun þá verður maður að láta það ganga fyrir (þið hefðuð átt að hafa þetta á morgun haaaaaaaaaaaaaaa). Jæja svona er nú bara lífið ;o)
Vona að þið skemmtið ykkar bara sem allra best í kvöld og ég bið að heilsa afmælisbarninu.
HÚRRA HÚRRA HÚRRA (nennti ekki að pikka inn afmælissönginn)

Bless í bili

þriðjudagur, desember 07, 2004

hugleiðingar í desember

Jæja stúlkur

Ég er búin að vera að velta því mikið fyrir mér undanfarna daga hversu mikið mál er að vera í vinnu alla daga versus það að vera í skólanum. Þegar maður var í skólanum gat maður sleppt því að þrífa í mánuð því að þegar prófin voru búin þá hafði maður lausan tíma og gat þess vegna dúllað sér við þetta allan daginn

Einnig var voða gott að standa upp frá bókunum af og til og setja í vél. Þar af leiðandi voru alltaf til hrein föt.

Maður gat stungið af í hádeginu og farið í bankann og farið klukkutíma fyrr heim ef maður vildi. Ef maður var svaka latur gat maður skrópað í skólann í 2-3 daga og mætt svo aftur til í tuskið.

Núna er maður á fullu í átta tíma í vinnunni og getur engum prívat erindum sinnt á þeim tíma. Klukkan fjögur er svo mikil traffík að það tekur óratíma að komast í það að sinna þeim erindum sem maður þarf að sinna. Klukkan sex þegar heim er komið þarf svo að sinna þessum þó fáum heimilisstörfum sem fylgja því þegar maður er einn í heimili. Svo borða og fyrr en varir er ekki nema 3 - 4 klst eftir af deginum. Þá er eftir að heimsækja fjölskydumeðlimi, sinna vinum , reyna að eiga áhugamál, lesa eitthvað annað en skólabækur, fara í ræktina og slappa af.

Þar eð ég er búin að vera í skóla í 20 ár samfellt þá er þetta algjörlega ómögulegt fyrir mig að finna útúr því hvernig ég á að getað sinnt 160% vinnu og öllu hinu líka. Þar eð margar ykkar hafa meiri reynslu af þessu en ég og eruð meira að segja með börn!!!!!!! þá langar mig að biðja um praktísk ráð til að komast hjá því að ég vakni upp marga morgna í röð og öll fötin mín eru skítug, heimilið drulluskítugt og ég veit ekki hvað er í fréttum síðastliðnar 2 vikur.

Kveðja Dögg

mánudagur, desember 06, 2004

Dagskráin :)

Dagskrá:

Þriðjudagur: Flogið til Washington, lent seint um kvöld, bílar sóttir,
farið upp á hótel/mótel
miðvikudagur: Washington
fimmtudagur: ½ dagur Washington, ½ dagur Atlantic city
föstudagur: Atlantic city
laugardagur: Phildadelphia – Mutter museum, keyrt til New York
sunnudagur: New York
mánudagur: New York
þriðjudagur: Six Flags þemagarður, sofið í New York
miðvikudagur: Montreal
fimmtudagur: Montreal
föstudagur: Boston
laugardagur: Boston
sunnudagur: Boston

mánudagur: Old Silver Beach (strönd fyrir utan Boston)
þriðjudagur: Ísland

sunnudagur, desember 05, 2004

Hæ hó

Hittumst nokkur í gær til að ræða skipulag Boston ferðarinnar. Nenni ekki að setja inn hvað gerðist (sorrí). Fundum einhvern bíl sem er tilvalinn og einnig kom fram hugmynd um kostnað sem mun verða eitthvað í kringum hundraðþús með flugi, bíl og hótelkostnaði. Þetta lítur því allt saman mjög vel út. Mig langar þó til að mæla með því að við einföldum ferðina aðeins hvort sem sú hugmynd verður felld eður ei. Einnig væri mjög gott að vita hvort einhverjir séu búnir að ákveða 100% að þeir ætli ekki með!! Þá á ég ekki við þau sem eru ekki viss hvort þau komist. Við ætlum auðvitað öll að fara saman en ef einhver hafa komist að þeirra niðurstöðu að þau ætli ekki að koma með þá væri mjög gott að vita það.
Minni en á kjörbókina.
kv. ólöf

fimmtudagur, desember 02, 2004

Hæbbs

Jæja þá. Var að kíkja á stöðuna á kjörbókinni og vil ég enn og aftur minna ykkur á að borga inn á hana. Staðan á bókinni er 81000 og er það að miklu leyti Sigurveigu að þakka eftir veglega innborgun í dag. Til hamingju með það að vera búin :) Þar sem við Ruben viljum ekki vera minni manneskjur en þú, Sigurveig, ákváðum við að klára okkar skammt líka og staðan á bókinni var að breytast í 129.000 !! :) :) :)
Hvernig líst ykkur á að við myndum hittast fljótlega og fara að kíkja á þann kostnað sem við búumst við að fylgi ferðinni??? Þið eruð velkomin hingað til okkar á laugardaginn ef þið hafið tíma. Varðandi það að kaupa dollara fyrir peninginn þá held ég að við ættum aðeins að bíða því dollarinn er enn að lækka, believe it or not! Hann er kominn niður í 64 kr! Þetta lítur því vel út.
Endilega kommentið eins og þið eigið lífið að leysa.
kv. ólöf birna

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Þá-er-það-ákveðið : )

Ohhh... ég veit það á eftir að koma risa bil hér á undan og kanski að eftir líka. Það kemur alltaf þegar ég blogga í vinnunni : (

En þetta er frábært, þá höfum við föndur og matarklúbb á laugardaginn : ) En hvað segiði, eigum við ekki að hittast bara snemma þ.a við getum verið búnar um kl. 17 og þá getum við farið að elda og þið farið heim með skrautið ykkar fína? Kanski bara um eittleytið? Svo getum við fengið okkur jólaöl og smákökur ofl til að koma okkur í jólaskap ; ) Eigum við, sem ætlum að kaupa okkur föndur, þá að hittast kanski á fös eftir vinnu í föndurbúð? Vei vei vei, ég hlakka svo til : )

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Matarklúbbur og föndur

Laugardagurinn hentar vel fyrir mig og Rúnar, við ætlum að fara vestur einhverja helgina fyrir jól þannig að það er fínt að matarklúbburinn sé þessa helgi og jafnvel föndrið líka. Ég er komin í svo mikið jólaskap að ég vil endilega fara að föndra sem fyrst. Ég hlakka bara til að hitta ykkur öll þá
kveðja Bryndís

Laugardagurinn...

... hentar mér ágætlega. Einnig held ég að Ruben sé ekkert að gera það kvöldið.
Varðandi jólaföndur þá er ég laus eins og er allar helgarnar í desember. Reyndar er laufabrauð einhvern sunnudaginn (man ekki návæmlega hvaða sunnudag) þannig að ég er allaveganna laus alla laugardagana í des. Það gæti þó breyst því ég held að það verði eitthvað gert í vinnunni einhverja helgina. Heyrist það svona á öllum.
Reynum að finna dag
kv. ólöf

Vá hvað það vantar að hafa commentið núna...

Sælar skvísur. Var að spá í hvort við gætum ekki föndrað sömu helgi og maturinn verður. Það er eiginlega besta helgin fyrir mig...prófin sko ;o)
Annars hentar helgin bara fínt...Heiða Björg hjá pabba sínum og ég bara laus og liðug.
Hlakka til að smakka á kræsingunum :o)

mánudagur, nóvember 22, 2004

Laugardagurinn?

Hola.
Hvernig hentar laugardagurinn 27. nóvember fyrir matarklúbb??? Er einhver bissý þá?

Ég var að klára aðventukransinn minn áðan, er agalega stolt af honum þ.a hann verður hafður til skrauts í matarklúbbnum þó það sé ekki komin aðventa : ) En viljið þið hafa jólaföndrið um helgi eða á virkum degi? Mér er alveg sama. Allavega getum við ekki haft það síðustu 2 helgarnar fyrir jól því þá komumst við Dögg ekki.

Matarklúbbur


Það vantar að vísu mig í contributors listann Ólöf, nema að þú viljir að ég hætti að skrifa hehehe...

Föstudagurinn henntar ekki vel fyrir mig og Grím, erum að fara á eitthvern hjartadag á vegum vinnunnar, aðrir dagar um helgina eru fínir.

Ég er byrjuð að föndra jóladagatal sem ég ætla að klára í vikunni og svo er ég auðvitað í kortunum líka. Varðandi skipulagningu á jólaföndri þá er ég alveg til í verslunarferð en má ég biðja um að allt jólastand verði ekki helgina 10 til 12 des því þá er ég að vinna..... annars er ég búin að vera voða dugleg að losa mig við vaktir í desember svo ég geti verið sem mest að jólast

Dögg

Matarklúbbur : ) - taka 3

Hellú.
Ohhh, ég var búin að skrifa blogg sem hvarf svo og síðan reyndi ég aftur og þá kom alltaf RISA bil á undan blogginu þ.a ég fór í fýlu í nokkra klukkutíma. En vona að þetta verði í lagi. Hmm... hvað ætlaði ég aftur að segja....? Já, í fyrsta lagi vildi ég segja að mér finnst síðan orðin gasalega fín. Flott að hafa e-ð svona template, þetta er rosa professional eitthvað : ) Svo var það matarklúbbur en við Fjalar erum víst næst í röðinni. Hvernig hentar föstudagurinn 26. nóvember???

Svo talaði ég við Ástu um daginn, hún kemur heim um kvöldið 16. desember sem þýðir að ég get hitt hana í London : ) Jibbý, ég hlakka rosalega til þess. Ég komst í rosa jólaskap um helgina, aðallega vegna þessa að ég föndraði þennan fína aðventukrans og fór bæði í garðheima og blómaval og keypti meira að segja eina jólagjöf. Svo elduðum við Þórey og Inga Lilý hlussu kalkún á lau með öllu tilheyrandi fyrir spatúlur og hitasveppi. Rosa gaman. En eigum við ekki að fara að kaupa e-ð föndur fyrir föndurklúbbinn og ákv. hvenær hann á að vera? Gott að hafa smá fyrirvara þannig að við séum allar lausar.

Kv. Elsa

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Hey, allt gamla bloggið er komið aftur. Þetta er sem sagt allt að koma. Á enn eftir að setja inn kommentin líkt og þið væntanlega hafið tekið eftir. Ef að frændi þinn, síró, á einhver flott templöt þá má hann endilega breyta okkar, ef allir samþykkja.
Hvenær er svo næsti matarklúbbur?
kv.ólof

laugardagur, nóvember 20, 2004

....

Ólöf...ég held að þetta sé barasta allt þínu fikti að kenna ;o) Hann var ekki kominn með lykilorðið til þess að komast inná síðuna þannig að ég STÓREFAST um að hann hafi verið að fikta. Þetta gengur annars alveg ágætlega hjá þér.
Hvernig var Bridget annars!!! Hlakka til að komast á myndina
Tjá for náv

föstudagur, nóvember 19, 2004

sælar

Ég var að velta því fyrir mér hvort breytingarnar á síðunni hafi komið til vegna fikts hjá mér eða hvort frændi þinn, Sigurveig, breytti henni? Er ekki alveg viss hvort ég klúðraði fiktinu en allaveganna, hvort sem þetta var ég (úbbs) eða einhver annar þá mun ég koma commentinu inn aftur þegar ég kem heim í dag.
Er alveg að verða búin í vinnunni eftir strembna viku. Djöh verður síðan fínt að sofa út á morgun. Langar helst að fara í Smáralindina að versla mér föt en efast um að fjárhagurinn leyfi það.
Minni enn og aftur á kjörbókina. Svo er spurning um að negla niður dagsetningu fyrir föndrið okkar þar sem það líður senn að jólatíð.
Viva la föndur og kjörbók.
kv. ólöf

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Hæ hó

Jæja skvísur. Kominn tími til að ég bloggi smá. Ég verð nú bara að segja að mér finnst soldið snemmt að það sé byrjað að spila jólalög á fullu í útvarpinu. Það er meira að segja farið að spila "jólalegustu" jólalögin sem manni finnst bara að eigi að spila rétt fyrir jólin. Reyndar komst ég í soldið jólaskap þegar snjórinn kom, finnst æði að hafa þennan snjó : ) en það mætti samt geyma jólalögin allavega fram í aðventu. Eigum við svo ekki að fara í föndurleiðangur við tækifæri fyrir föndurklúbbinn? Ég væri til í að mála e-ð trédót, mér finnst það alltaf jafn gaman. Eða bara eitthvað sniðugt. Hver á annars að halda des föndurklúbb?
Annars erum við Fjalar búin að bóka flug og panta hótel í London : ) Hann er að fara á námskeið og ég ætla að skella mér með. Við förum 13. des og komum aftur 19. des. Þ.a það er eins gott að vera búin að öllu jólastússi fyrir þann tíma, nema kanski að kaupa nokkrar jólagjafir. Ég verð nú að hafa eitthvað fyrir stafni á meðan hann er á námskeiðinu ; ) Ég er að vona að Ásta verði ennþá úti á þessum tíma, það væri æði.

Yfir og út.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Myndir

Sælar skvísur. Jæja nú væri gott að fá einhverjar flottar myndir af ykkur. Veit að þið verðið ekki í erfiðleikum með að finna slíkar myndir :o) Ástæðan er sú að ég er búin að biðja Hreiðar frænda um að útbúa nýtt lúkk á síðuna okkar. Rosa góður frændi maður...
En ef þið eruð á móti því þá bara getum við reynt við þetta sjálfar :o)
Tjá for náv

föstudagur, nóvember 12, 2004

Svartur dagur hjá kennurum

Í dag hef ég sannfærst um að lýðræði á Íslandi er fótum troðið. Verkfallsréttur kennara er dauður og kúgunarrétti ríkisins hampað sem aldrei fyrr. Hvert stefnir þetta allt saman?

Ég gæti haldið hér langa tölu um atburði dagsins en læt það vera. Eitt er þó víst, kennarar munu ekki taka þegjandi og hljóðalaust við útkomu dagsins. Engan veginn.

En annars. Hvað á að gera í kvöld? Bíó? Vídeó? Ég er til í allt sem kemur manni í gott skap.
kv. ólöf

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Leidís

Þar sem ég er orðin að virkum internetfíkli í verkfallinu þá langar mig til að forvitnast um undirtektir ykkar varðandi breytingar á síðunni! Var að fikta í bloggsíðunni minni og sá að það eru komin ágætis templates inna bloggerinn, templates sem eru mun skárri en þessi sem við erum með.
Hvernig líst ykkur á?
Jors forever
Ólöf

Hún á afmæli í dag...

Haldiði að litla örverpið sé ekki bara orðið 17 ára. Jújú og við erum að fara að sækja ökuskírteinið í hádeginu. Var svo búin að lofa því að hún fengi að keyra heim...spurning um að skipta um bíl áður en ég skutla henni hehehe. Verð svo með mat í kvöld sem afmælisbarnið fékk að velja sjálft og svo ætla ég að búa til bílaköku ;o)
Jæja ætla að skunda út í búð núna.
Tjá bella

mánudagur, nóvember 08, 2004

saltkjöt og baunir...túkall hehehehe

Jæja skvísur er ekkert að frétta!!! Það er nú reyndar ekkert að frétta svosem af mér. Jújú hvaða vitleysa, keypti mér þennan fína prentara í gær þannig að ég er bara búin að sitja fyrir framan tölvuna og drita út óprentuðum glósum :o) Ég er orðin svo tæknileg að það hálfa væri yfirdrifið nóg.
Greyið litla Ólöf mín...verður komin í rosa þunglyndi rétt fyrir jól vegna verkfalls uss uss uss....Ég veit hvað við stelpurnar getum gert til þess að halda þér frá þunglyndi.... þú færð að gera öll jólakortin fyrir okkur :o) SNILLDARHUGMYND
Annars hef ég nú ekkert að segja þannig að ég ætla bara að koma mér inn í eldhús og klára að útbúa þennan rosalega rétt sem ég hef ætlað að elda í tæpa viku.
Tjá bella... eða eitthvað svoleiðis

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

BOSTON

Sælar.
Ætla aðeins að minnast á kjörbókina okkar í tilefni mánaðarmóta.
Sigurveig er búin að borga :) Við hin stöndum okkur ekki alveg jafn vel!
Kv. Ólöf

föstudagur, október 29, 2004

MATARKLÚBBUR!!!

Þá er það ákveðið. Það verður matarklúbbur hjá mér og Jóa á morgunlaugardag um 20:00. Öllum velkomið að djamma ef þið viljið á eftir....en ég tek það strax fram að ég nenni ekki í bæjinn, en er alveg til í að djamma heima og svo geta einhverjir farið í bæjinn ef þeir vilja! Annars ætlum við að fara í bíltúr á morgun á nýja bílnum ef einhverjir vilja koma með....Heyrumst allavega sem fyrst og endilega látið mig vita ef einhver kemst ekki á matinn, annars geri ég ráði fyrir;
Dögg og Grímur
Elsa og Fjalar
Ólöf og Ruben
Sigurveig
Bryndís og Rúnar
ég og Jói
....samtals 11 manns....er ég nokkuð að gleyma einhverjum sem er á landinu sem stendur???

mánudagur, október 25, 2004

Hvað er að gerast!!!

Halló stúlkur mínar
Leiðinlegt að ekki fékkst betri þátttaka í djamm um helgina. Ég held að þetta hafi endað með því að Elsa og Fjalar fóru á NASA, ég og Grímur á pöbbarölt og aðrir voru heima. Hér með auglýsi ég eftir matarklúbbi októbermánaðar og djammi í kjölfarið. Ef mér reiknast rétt til þá er næsta helgi pabbahelgi hjá stelpunum og jíbbí ég er ekki að vinna og aumingja Ólöf er enn í verkfalli ( goooooo kennarar) því er kjörið að lyfta okkur pínu oggu ponsu upp. Ef enginn vill eða getur haft matarklúbb þá býð ég mig fram til að halda partý......

Hvernig lýst ykkur á það?

Dögg

fimmtudagur, október 21, 2004

Helgin - Iceland Airwaves : )

Hæ skvísur!
Jæja, bara kominn fimmtudagur og helgin framundan. Hvað á svo að gera skemmtilegt? Eruð þið kanski í djammstuði? ; ) Ég er að fara á þróunardag í bláa lóninu allan morgundaginn til kl 23. Býst nú ekki við að gera mikið um kvöldið þar sem ég verð örugglega þreytt eftir fyrirlestra frá 9-17.

Nú er airwaves byrjað og fullt af góðum hljómsveitum sem troða upp. Við Fjalar vorum fyrst að spá í að kaupa passa en hann kostar 5000 kall. En við förum sennilega bara á laugardeginum þ.a það borgar sig ekki. Aðal djammið er á Nasa á laugardaginn, það kostar 2000 kall inn og þessar hljómsveitir verða:

20:00 Ampop 20:45 Ske 21:30 Mugison 22:15 Unsound 23:15 Quarashi 00:00 The Bravery (USA) 01:00 Trabant 02:00 Gus Gus

Við förum í útskrift til frænku minnar milli 17 og 19 á lau og förum svo sennilega beint á Nasa, ætla ekki að missa af Ampop í þetta sinn : ) Hvað segið þið um að koma á djammið á lau??? 2000 kall hljómar kanski mikið en maður er að fá mikið fyrir peninginn, þetta verður pottþétt mega skemmtilegt kvöld. Þið getið lesið um hljómsveitirnar á icelandairwaves.com. Við fáum örugglega borð því við mætum svo snemma : )

Adios,
Elsa

mánudagur, október 11, 2004

Helgin búin !!

Hæ hæ stelpur
Nú er ég náttúrulega að drepast úr forvitni hvernig sumarbústaðaferðin heppnaðist. Nú verðið þið að segja mér allt í smáatriðum, eða er það ekki nethæft hummmm.. ?? :) Hver sigraði Singstar,hvað gerðuð þið, hver drakk mest o.s.frv. En allavega var helgin hjá mér alveg frábær, ég hugsa að hún hafi samt verið aðeins rólegri en hjá ykkur. Við gerðum samt slatta, við fórum í göngutúra, á kaffihús, bíltúra, fórum á markað og kíktum auðvitað í kaupfélagið. Svo slökuðum við auðvitað mikið á líka. Svo þetta var bara hin besta ferð, Geirmundur Viðar var bara eins og hann hafi flogið oft áður. Drakk pelann sinn í flugtakinu og skoðaði hringluna sína og aðra farþega og svaf svo hálfa heimleiðina. Ekki mikið mál að ferðast með þennan engil.
Ég var að spá í eitt Ólöf, þoriru að hafa Krumma úti, út af þessum kolbrjáluðu hundum í seljahverfinu og svo er þetta bara næsta gata við þig er það ekki ??
Jæja sjáumst vonandi sem fyrst
kveðja Bryndís

föstudagur, október 08, 2004

Ferðareikningur

Hæ hó.
Hlakka ekki smá til að fara í sumó á morgun. Þetta verður mikið stuð og mikið gaman. Ætla nú samt að minna á reikninginn okkar. Það eru 4 búnir að leggja inn og vonandi fylgja fleiri með í kjölfarið. Það er samt auðvitað alveg frjálst hvenær þið borgið en svona ágætt að vera minntur á þetta annað slagið, a.m.k. eftir mánaðarmót.
Er enn að dunda mér í verkfalli. Rosalega gaman að vera með 4 ára háskólanám á bakinu og þurfa að fara í margra vikna verkfall til að fá mannsæmandi laun eða þannig. Þetta lætur mann virkilega hugsa sig tvisvar um hvort það sé þess virði að halda áfram í þessu starfi! Miðað við umræðuna undanfarið þá held ég að ég fari bara að kalla mig líffræðing frekar en að kalla mig kennari þó svo ég sé bæði. Æji, allaveganna, við sjáumst í góða skapinu á morgun!
kv. ólöf

fimmtudagur, október 07, 2004

SUMARBÚSTAÐUR

Hvað ætla margar að fara í sumarbústaðinn??? Veit allavega að það er ég, Elsa, Ólöf, Sigurveig, Dögg, Þórey, kærasta Jóseps (er það ekki annars??)....er ég að gleyma einhverjum??? Allavega 7 eins og er.

Hver ætlar að taka að sér að versla fyrir liðið og svo bara rukka okkur fyrir þegar heildartalan er komin, þ.e. það þarf að kaupa eitthvað til að borða um daginn og kvöldið á laugardeginum og svo í morgunmat á sunnudeginum....og svo auðvitað snakk, nammi og áfengi (og meðfylgjandi) til að búa til mohitos og svo kannski breezer eða bjór með fyrir laugardagskvöldið. Ég væri alveg til í að taka það að mér ef enginn annar bíður sig fram í það að vera innkaupastjóri fyrir ferðina (en þá þyrftu ALLAR sem vilja vera með í sameiginlegu innkaupi að vera búnar að leggja inn á mig pening fyrir laugardaginn)......myndi reyna að draga hana Sigurveigu með mér áður en við leggðum af stað út úr bænum í verslunarferð. En ef það eru einhverjar séróskir um mat, verðið þið að láta vita í síðasta lagi í dag....annars verður bara eitthvað gott keypt (og enginn má fara í fýlu ef það er eitthvað sem viðkomandi borðar ekki....hehehe)!

miðvikudagur, október 06, 2004

Nýtt netfang

Halló
Nú er ég bara örfáum dögum frá því að vera netvædd, búin að panta ADSL áskrift og hún verður komin í gang fyrir helgi. Með henni fylgdu hvorki meira né minna en 5 netföng. Ég mun þó eingöngu nota eitt þeirra. Því er doggh@simnet.is nýja adressan mín og hi adressan er lokuð. Því þætti mér vænt um ef þið mynduð allar nota þessa þannig að ég geti nú fylgst með hvað er að gerast í heiminum.

Við fórum í þythokkí í gær og rústaði Grímur mér algjörlega. Ég vann ekki einn leik. En náði einu jafntefli.... Ég þarf klárlega æfingu.

Kveðja Dögg

mánudagur, október 04, 2004

Úbbs

Halló stelpur

Sorry sorry sorry Ólöf og Ruben að ég skuli ekki hafa fylgst með hvenær flutningar voru og eigi þið inni nokkra kassaburði hjá mér. Ég er nefnilega búin að vera netlaus vegna þess að gamla tölvan mín er endanlega búin að gefa upp öndina og dadara ég er búin að fá nýja. Davíð félagi minn lét mig kaupa notaða IBM tölvu sem er rosalega flott og miklu flottari en ég þarf á að halda, nú eru svona 10 dagar í það að ég verði komin með ADSL tengingu og þá fer ég að verða viðræðuhæf aftur, netlega séð.

Ég fór í sveitina til Gríms um helgina, við kíktum á hestbak og svo slappaði ég bara rosalega vel af. Það er einn kostur við fótbolta áhuga hjá þessum strákum, það er hægt að leggja sig í eftirmiðdaginn um helgar, meðan hann horfir á boltann. Mjög sniðugt, að vísu var planið að lesa bók en ég sofna alltaf yfir þeim.

Við kíktum svo í mat hjá eldri bróður hans og fjölskyldu á sunnudagskvöldið. Nú erum við sem sé búin að fara allan fjölskyldu rúntinn......

Hvernig er plan fyrir næstu helgi? Ég er á vakt í kvöld en svo ekki meir í vikunni. Vonandi var gaman í lokahófinu á laugardaginn Thelma.

Heyrumst Dögg

föstudagur, október 01, 2004

Hæ hó

Jæja, þá erum við búin að borga seinni greiðsluna í íbúðinni og komin með afsalið. Þetta gekk svosem ekki alveg snurðulaust fyrir sig því fasteignasalan gleymdi að nefna það við okkur í gær að við ættum að borga fasteignagjöld o.s.frv. við afsalsafhendingu þannig að það bættist rúml. 30 þús. kall við greiðsluna sem við áttum ekki von á. Einnig lét Ruben fólkið dáldið heyra það áður en við létum þau fá stóru ávísunina. Skammaði hann þau fyrir að skila íbúðinni drullugri og öllum veggjum holóttum eftir skrúfur. Þau sátu greyin eins og dæmd og gátu ekki stunið upp orði sem er nú bara pínu gott á þau því íbúðin var, vægast sagt, nokkuð subbuleg og með aðeins fleiri íbúum en við vissum um. Eru 34 skottur farnar yfir móðuna miklu og fer sú tala hækkandi... En nóg um það, núna er íbúðin 100% okkar og ég segi bara jibbý. Á morgun ætlum við svo loksins að flytja inn og ef einhver vill hjálpa að bera þessa örfáu kassa sem við erum með þá er það vel þegið. Vegna flutningsins þá ætti ég nú eiginlega ekki að vera að hanga hér í tölvunni akkúrat núna heldur að vera að þrífa íbúðina mína með ryksuguna á fullu og kveð ég því nú :)

Hlakka mikið til að fara upp í bústað næstu helgi. Þetta verður mikið stuð og ennþá meira stuð og strákarnir eiga sko eftir að gráta þegar þeir heyra lætin í okkur alla leið yfir holt og hæðir.
Adios senjorítur.

Sumarbústaðaferð!!!

Jæja skvísípæs. Er ekki kominn tími til að fara að plana sumarbústaðaferðina miklu? Ertu búin að fá bústað Sigurveig? Er stefnan ekki sú að fara á laugardeginum og vera lau nótt? Það væri frábært að grilla eitthvað gott og kaupa nóg af rauðvíni og öðru víni (t.d Mohito...). Svo getum við farið í Sing Star og fengið okkur bjór í pottinum : )

Endilega látið í ykkur heyra, við verðum nú að plana þetta vel þ.a það verði miklu skemmtilegra hjá okkur en hjá strákunum ; )

Kv. Elsa

þriðjudagur, september 28, 2004

Og verkfall heldur áfram...

Það er svo sem búið að vera nóg að gera hjá mér í verkfallinu. Erum búin að vera á fullu í íbúðinni og looooksins fer að sjá fyrir endann á þessum endalausu uppfæringum sem við ákváðum að hella okkur út í. Búið að slípa parketið og setja á það fimm lakklög og þó svo ég segi sjálf frá þá lítur það mjög vel útþ Máluðum og máluðum í gær með mömmu og pabba til halds og trausts. EInungis ein umferð eftir á stofuna og eldhúsið. Þetta er semsagt allt að koma. Á eftir þarf ég að skreppa í íbúðina til að taka á móti pöddumorðingjanum sem ætlar að spreyja alla íbúðina og losa hana við allt kvikt og óboðið. Það verður mikill léttir.
En segið mér... Hver verður með næsta matarklúbb?
Æjá, eitt í viðbótt. BANKAREIKNINGUR. Nú er búið að stofna eitt stykki söfnunarreikning fyrir Bostonferð og endaði hann einhverra hluta vegna á mínu nafni. Alveg óvart. Ég get sem sagt fylgst með honum á netinu og séð um allt sem að því kemur. Þið ráðið hvort ég fari pöblik með yfirlitið eða þá hvort það ríki trúnaður á milli mín og ykkar sem einstaklinga þannig að hver og einn hefur áhyggjur af því hvar hann stendur án þess að hafa allan hópinn yfir sér. Nánari díteil er best að senda til ykkar í pósti enda algjör óþarfi að plögga því hérna á netinu. Þetta er líka orðið andsk. langt blogg.
Kv. Ólöf

mánudagur, september 27, 2004

:o(

DJÖ DJÖ DJÖ....ekki endaði þessi helgi nú vel. Kíktum í heimsókn til frænku minnar á laugardaginn og svo vildi Heiða Björg og ein frænkan endilega sofa saman HEIMA HJÁ MÉR. Var síðan að greiða þeim í gærmorgun og JIBBÍ JEI frænkan morandi í lús...HROLLUR. Ég sem ætlaði að fá eitthvað gott að borða í afmælinu hans Rúnars í gær en nei ég stóð á haus að þrífa allt hátt og lágt. Mér finnst alveg ótrúlegt að ég skyldi ekki fá móðursýkiskast, hélt alltaf að ég myndi sturlast ef ég myndi finna lús hérna en neibb ég var bara hin rólegasta. Ætla bara rétt að vona að við séum búnar að losa okkur við þennan óboðna gest og að hann komi aldrei aldrei aldrei aftur.
Takk fyrir mig

þriðjudagur, september 21, 2004

Afmæli hjá Rúnari Erni næsta sunnudag klukkan 13:00

Hæ, hæ!!

Ætlum að halda upp á afmælið hans Rúnars Arnars næsta sunnudag klukkan 13:00 vegna þess að á afmælishelginni er hann hjá Jakobi pabba sínum og svo helgina eftir það erum við uppi í sumarbústað að djúsa.....;-) Það væri mjög gaman ef þið háksmeðlimir, makar og börn gætuð komið í afmælið hans og þegið góðar veitingar.....en þetta verður svona ekta barnaafmæli, með súkkulaðikökum og fleira góðgæti....nammi, namm!!

Endilega látið okkur vita ef þið komist ekki. Annars verðum við bara í sambandi.

Kveðja Thelma og co.

þriðjudagur, september 14, 2004

Innflutningspartý næsta laugardagskvöld!!

Hæ, hæ!! Hvernig líst ykkur á að mæta í smá innflutningspartý næsta laugardagskvöld heima hjá okkur Jóa í smá léttar veitingar og fljótandi veigar fyrir þá allra fyrstu?? Mæting er um 9.....nema fyrir Ólöfu og Ruben....þau eiga að mæta klukkan 8....hehehe....;-) En endilega látið okkur vita sem fyrst ef þessi dagur hentar ekki vegna þess að þá reynum við að flytja partýið yfir á föstudaginn, þ.e.a.s. ef næstum enginn kemst á laugardeginum. Hlakka annars til að hitta ykkur og endilega byrjið að redda pössun fyrir þá sem þurfa, vegna þess að þetta verður svaka stuð.

Ásta mín, við skulum bara hugsa rosalega vel til þín í útlandinu á meðan og ég skal sjá um að einhver drekki líka fyrir þig!!! ;-)

Adios amigos, Thelma og Jói.

þriðjudagur, september 07, 2004

Til hamingju með daginn elsku Dögg : )

Hún á afmæli í dag
Hún á afmæli í dag
Hún á afmæli hún Dögg
Hún á afmæli í dag.........Húrra húrra húrrrrrrrraaaaaaaaaaaaaaa!!!

föstudagur, september 03, 2004

Góða helgi

Halló allar saman
Þá er komin einn ein helgin og ég er á leið í smalamennskur og réttir. Reyndar geri ég nú minnst, ég hugsa bara um Geirmund Viðar og læt Rúnar sjá um að fara á fjall og reka rollur :) Ég er eiginlega bara mjög fegin, er ekkert sérstaklega mikið fyrir að vera að hlaupa á eftir rollum og er þetta því ágæt afsökun, hí hí. Verð að fara að finna mér afsökun fyrir næstu smalamennskur, spurnig um að vera orðin ólétt aftur hmmm, því þá get ég ekki hlaupið, annars er hann ennþá svo ungur þannig að hann mun verða afsökun fyrir mig næstu 2 árin, svo þarf ég að fara að hugsa. Það er eins gott að Rúnar lesi ekki þetta blogg. Þið lofið að segja ekkert, usssss. En allavega vonandi hafið þið það gott um helgina og við sjáumst í næstu viku.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Uppgjör

Halló
Var búin að skrifa svaka flottan útpældan póst hérna en þá hvarf hann auðvitða því tölvan fann ekki síðuna. OK styttri útgáfa 6100 á manninn en 3500 fyrir Jóa. Sendið mér SMS til að fá kennitölu og reikningsnúmer

Dögg

föstudagur, ágúst 27, 2004

Nokkur atriði sem gleymdust...úpsí búbsí

Ok það sem gleymdist var það að þið eruð vinsamlegast beðin um að mæta með nesti fyrir hádegið. Þið megið alveg koma með laugardagsnammið með ykkur...það er ekki bannnað.
Og svo er spurning hverjir vilja vera bílstjórar...við getum farið á tveimur bílum þar sem Jói getur ekki hitt okkur fyrr en seinni partinn. Ég hefði alveg verið til í að fara á mínum bíl en þar sem ég er ekki búin að fara með hann í stillingu og smurningu þá vil ég helst ekki fara á honum (á tíma á þriðjudaginn með bílinn).

Jæja ætli við hittumst ekki öll hjá Thelmu í kvöld hress og kát að vanda ;o)

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Úgga búgga....

Jæja skvísur...enn og aftur. Þá er komið að lokalistanum.

Það eiga allir að mæta með regnföt, sundföt og djammföt( og annar aukabúnaður sem fylgir þessu fyrrnefnda..handklæði, make up og fleira).

Auk þess á Rúnar að mæta með eldspýtur, Bryndís með 2 sprittkerti, Ruben með aukanærbuxur, Ólöf með strigaskó, Fjalar með spilastokk, Elsa með svartan plastpoka, Thelma með uppþvottalög, Ásta með einn bolla og Nescafé, Dögg með klósettrúllu og Sigurveig með Fréttablaðið.

Einnig vil ég taka fram að allir skulu mæta með penna í farteskinu og karlpeningurinn skal mæta með stígvél.

Vil ég enn og aftur ítreka fyrri lista
1. Regnhlíf
2. Mislitir sokkar
3. Bleikt hárskraut

og nú er komið nýtt á listann en það er að karlpeningurinn á að mæta með eitthvað blátt um ennið;o)
Þeir sem ekki uppfylla þessi skilyrði verða skildir eftir heima :o(

ÞAÐ EIGA ALLIR AÐ VERA MÆTTIR TIL DAGGAR FYRIR KL: 10:30 Á LAUGARDAGINN. ÞEIR SEM EKKI VERÐA MÆTTIR TIL DAGGAR ÞEGAR KLUKKAN SLÆR 10:30 VERÐA FYRIR MIKLU SVEKKELSI ÞEGAR ÞEIR MÆTA....AF ÞVÍ AÐ VIÐ VERÐUM FARIN.

Annars vona ég bara að allir mæti á réttum tíma, vel útkvíldir og til í smá skemmtun. ÞAÐ ER STRANGLEGA BANNAÐ AÐ SKILJA GÓÐA SKAPIÐ EFTIR HEIMA.

Þangað til næst...

Óvissuferðin

Jæja skvísur...þá er það þriðja atriðið. Það eiga allir að mæta með eitthvað bleikt í hárinu :o)
Strákarnir þurfa þó ekki að mæta með neitt í hárinu

Þá eru þessi atriði komin:
1. Regnhlíf
2. Mislitir sokkar
3. Bleikt hárskraut

Eru ekki annars allir að verða klárir fyrir ferðina....

Kveðja

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Óvissuferðin

Jæja skvísur...þá er það atriði númer 2 sem verður að hafa með sér í ferðina: ÞAÐ EIGA ALLIR AÐ MÆTA Í MISLITUM SOKKUM...HELST Í MJÖG ÁBERANDI LITUM.

Þá eru þessi atriði komin:
1. Regnhlíf
2. Mislitir sokkar

Þangað til næst

mánudagur, ágúst 23, 2004

Takk fyrir alla aðstoðina!!!

Hæ girls, langaði bara að þakka kærlega fyrir alla aðstoðina í gær....erum nú alveg búin að mála íbúðina, en ætlum að dunda okkur í að pússa og mála gluggakarmana í dag. Og svo er að bæsa nokkur húsgögn og svo er flutningur örugglega næsta föstudag.

Ef þið verðið í stuði þann dag væri öll hjálpa vel þegin við að flytja, endilega látið í ykkur heyra í vikunni.

Svo er auðvitað kominn tími til að fara að hlakka til óvissuferðarinnar næsta laugardag, erum meira að segja búin að koma honum Rúnar Erni aftur í pössun til hans Jakobs, þannig að það verður ærlega slett úr klaufunum þennan dag!!!

Þangað til næst.....bæjó!

laugardagur, ágúst 21, 2004

Til hamingju með daginn Ólöf !!

Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Ólöf,
hún á afmæli í dag.

Hún er 27 ára í dag,
hún er 27 ára í dag,
hún er 27 ára hún Ólöf
hún er 27 ára í dag.
vei vei húrra húrra !!! :)


Til hamingju með daginn Ólöf mín.
sjáumst.
kveðja Bryndís

föstudagur, ágúst 20, 2004

Til hamingju stelpur

Elsku Thelma, til hamingju með nýju íbúðina ykkar. Hlakka til að kíkja á hana. Það er svo gott að fá ykkur hingað í Breiðholtið :o)

Og elsku Ólöf mín, hjartanlegar hamingjuóskir með daginn á morgun. Vonandi færðu nóg af pökkum...það er svo gaman. Það verður líka rosa gott að fá ykkur Ruben í Breiðholtið :o)

Já og svo þið hin sem ekki búið í Holtinu...endilega skellið ykkur á 1 stk. húsnæði í Holtinu ;o)

Hlutur 1 sem á að taka með í óvissuferðina
REGNHLÍF

Fleira var það ekki í bili kæru Hákar
Adios

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Ji minn eini almáttugur....

Það er bara örtröð hérna eins og fyrri daginn. Jæja ég held að það sé alveg að verða komin lokamynd á óvissuferðina...þið fáið auðvitað ekkert að vita hvernig sú mynd er...bara upphæðina sem við Dögg þurfum til þess að geta látið verða að þessu. Ég var nú reyndar búin að láta vita í commentinu í seinustu umræðu en ítreka það hér...þetta eru ca. 5000 kr á haus sem við þurfum að fá fyrirfram (held að það sé best að einn sé með peninginn svo það verði ekkert vesen...s.s. Dögg verður buddan). Ég veit að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum þannig endilega ef þið eruð blönk farið þá eftir ráði mínu...SAFNIÐ DÓSUM. Þið getið rölt niður í bæ um helgina og hirt dósirnar af liðinu niðri í bæ og gengið í hús.
Frekari upplýsingar um fatnað og fleira kemur inn á næstu dögum.
Þangað til næst...

mánudagur, ágúst 16, 2004

Blogg síðan í gær

Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún Thelma
hún á afmæli í dag.........veiiiiiiiiiii

http://www.animationgrove.co.uk/cards/pc1/bday1.gif">

Innilega til hamingju með afmælið skvís ; )

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Bara örtröð á blogginu :o)

Jæja skvísur...ÞAÐ VERÐA ALLIR AÐ TAKA FRÁ LAUGARDAGINN 28. ÁGÚST 2004. Thelma og Jói, Bryndís og Rúnar: FARIÐ AÐ REDDA YKKUR PÖSSUN. Veit að það verður ekkert mál að redda pössun þegar um er að ræða svona vinsæla drengi ;o)
Það er ekki komin endanleg mynd á óvissuferðina en ætli við hefjum hana ekki stundvíslega á slaginu klukkan 12:00:00. Ég get verið driver ef þið viljið en bara endilega látið vita ef einhver annar er rosa spenntur fyrir því hlutverki. Þeir sem eru fátækir endilega hefjið dósasöfnun fyrir þessa helgi, þetta á eftir að verða rosa stuð. ÞOKKALEGA. VÁ HVAÐ ÉG HLAKKA TIL.... EN YKKUR!!!
Kannski er ekkert skrítið að ég sé farin að hlakka til þar sem ég er að REYNA að læra undir próf í 25 stiga hita SJITTURINN. Fór reyndar niður í Nauthólsvík í morgun og það var æði. Reyndar hefði mátt vera aðeins minna af þessum dordinglum sem virtust geta vaðið yfir allt og alla...maður var að finna þá í brjóstaskorunni og alles....Svo þegar víkin fór að fyllast af baðgestum virtust þessir brjóstaskoruvaðarar yfirgefa svæðið.
Berglindi var nú hætta að lítast á blikuna þegar hún horfði framan í mig...ég var orðin svo ELDRAUÐ í framan að ég var farin að lýsa upp víkina og flugvélar farnar að ruglast í ríminu (héldu að þetta væri eitthvað viðvörunarljós og flugu allar í burtu heheh). Nei ok það var kannski ekki alveg svona slæmt...smá ýkjur. Eins og þið heyrið þá hefur farið lítið fyrir próflestrinum í dag en það er bara vonandi að það fari að rigna á morgun og alla helgina...ætla að vera með regndans í kvöld úti á svölum...allir velkomnir. EEEEEEEEEEEEEN ég er búin að panta góða veðrið aftur eftir 24 ágúst 2004 þannig að það verður sól og hiti á óvissudeginum.
Hvað er annars að frétta af ykkur hinum. Er næstum því farin að sakna ykkar :o)
Læt ykkur fá frekari fréttir af óvissudeginum innan tíðar
Tjá for náv súperskvísur

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

HVAÐ Á AÐ GERA UM HELGINA?? ÉG PANTA ALLAVEGA SÓL!

HÆBB, HVAÐ Á SVO AÐ GERA UM HELGINA? VIÐ ÆTLUM AÐ FARA UPP Í GARPSDAL FYRIR VESTAN TIL BRYNDÍSAR, RÚNARS OG GEIRMUNDS VIÐARS OG STYTTA ÞEIM STUNDIRNAR FRÁ LAUGARDEGI FRAM AÐ SUNNUDAGS....EN ÞAU VERÐA EINMITT BÆNDUR NÆSTU TVÆR HELGARNAR. VEIT AÐ ELSA, FJALAR OG RUBEN ÆTLA KANNSKI LÍKA AÐ FARA, ÞANNIG AÐ ÞAÐ VERÐUR ÖRUGGLEGA FJÖR Í SVEITINNI. ÆTLAR RESTIN AF HÁKSMEÐLIMUM LÍKA AÐ FARA ÞANGAÐ....BARA FORVITIN....ER BARA AÐ FYLLA SVEITINA AF FÓLKI (.....ÞIÐ ÆTTUÐ NÚ SAMT AÐ HAFA SAMBAND VIÐ BRYNDÍSI OG CO. FYRST EF ÞIÐ HAFIÐ ÁHUGA.....ÞAU SJÁ VÍST UM AÐ VEITA LEYFIÐ, EN EKKI ÉG....MÉR FINNST BARA SVO GAMAN Í SVEITINNI ;-) ....). HEY! KANNSKI GETUM VIÐ FARIÐ Í BERJAMÓ OG FENGIÐ OKKUR SKYR MEÐ BLÁ- OG KRÆKIBERJUM OG RJÓMA.....NAMMI, NAMM!!!

ENDILEGA KOMMENTIÐ EITTHVAÐ, ÞAÐ HEFUR NÚ VERIÐ TAKMÖRKUÐ NOTKUN Á ÞESSARI SÍÐU UPP Á SÍÐKASTIÐ....ERU BARA ALLAR HÆTTAR AÐ KÍKJA Á HANA??

þriðjudagur, júlí 27, 2004

=^ ^=

Hádí
Var búin að skrifa ágætis blogg en tókst einhvern veginn að klúðra því þegar ég reyndi að setja inn mynd.  Því miður virðist ég ekki muna lengur hvernig á að gera það :(
Ég varð að skrifa eitthvað inn á síðuna okkar svo hún lognist nú ekki alveg út af.  En þar sem það styttist nú óðum í það að flestir fara að vinna eða í skóla þá lifnar síðan nú örugglega við aftur.  'Eg hef engar áhyggjur af því.
Mig langaði bara að vita hvað Hákarar ætla að gera um helgina... Ég er til í útilegu þar sem sólin skín og fuglarnir syngja í takt við sumargoluna.  Hvað með ykkur??
Endilega kommentið, kæru Hákarar.
Kveðja.

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Jæja stelpurFjör í sumar

Jæja rúsínurnar mínar. Nú er allt að gerast. Útileiga um helgina, svo ætla ég að halda matarklúbb næstu lausu helgi þegar allir eru heima. Svo erum við Sigurveig að skipuleggja skemmtiferð fyrir hópinn síðustu helgina í ágúst þannig að haldið þeirri helgi opinni.
Annars er lítið að frétta af mér. Brá mér á deit á mánudaginn sem var nú frekar misheppnað en deit engu að síður. Ég hef ekki farið á deit í rúmt ár þannig að það var kominn tími til. Það eru ekki fyrirhuguð fleiri stefnumót með þeim manni.
Ég heyrði í Elsu og Fjalari áður en þau lögðu af stað út. Rosalega ánægð með brúðkaupið og gjafirnar og ætla að bjóða okkur í mat til að sjá nýja matarstellið fljótlega.
Svo fórum við Sigurveig í bíó á þriðjudaginn, sáum klassíska stelpumynd. Raising Helen, hún var alveg ágæt en svolítið langdregin, kannski aðeins of mikið Daytime television for women stíll á henni. Hér með auglýsi ég eftir einhverjum til að koma með mér á Harry Potter og Spiderman myndina sem ég verð auðvitað að sjá líka.
Kveðjur af Suðurlandinu

miðvikudagur, júlí 14, 2004

The morning I wake up....

Before I put on my makeup...

Ég varð að byrja bloggið á þessum orðum til að koma þeim frá mér vonandi fyrir fullt og allt... Er nefnilega búin að vera með þetta lag á heilanum síðan á fimmtudaginn!
Ég ætlaði hinsvegar ekki að tala um brúðkaup í dag, nei nei, heldur útilegu. Við Ruben erum alveg til í eina skemmtilega útilegu í góðu veðri (vonandi). Erum búin að fá leyfi til þess að fara á bílnum hennar Írisar sis og einnig búin að fá lánað tjald hjá Önnu Fanneyju sis og svo er ég tilbúin með kíkir, fuglahandbókina og íslensku plöntuhandbókina ásamt myndavél! Það verður því stuð og gaman hjá mér og íslenska lífríkinu...
Hverjir ætla að skella sér með?

mánudagur, júlí 12, 2004

Komnar inn myndir frá brúðkaupinu!!!

Endilega kíkið á myndirnar....varð að takmarka við bara okkur og svo auðvitað brúðhjónin vegna þess að ég er með um 900 myndir í tölvunni og ég setti samt inn rúmlega 60 myndir.

MYNDIR

Jæja stelpur...er ekki bara málið að fara að setja inn einhverjar myndir úr brúðkaupinu og kannski líka aðeins fleiri úr gæsuninni ;o)
LANGAR SVO MIKIÐ AÐ SJÁ FLEIRI MYNDIR

föstudagur, júlí 09, 2004

Stelpur er ekki kominn tími til að plana eitthvað annað en brúðkaup

Jæja rúsínurnar mínar

Núna þegar ég er búin að gera ykkur vitlausar á stjórnseminni í mér þá finnst mér kominn tími til að núlla eitthvað af henni út. Mig langar því að bjóða ykkur og mökum í sumarmatarklúbb næstu helgi. Helst á laugardeginum. Pælingin var að hafa létta sumarrétti og við myndum fara í göngu í kringum elliðadalinn áður en við settumst að snæðingi. Mæting myndi vera um kl 18 og bjór og aðrir áfengir drykkir hafðir við hönd. Endilega commenterið ef tími og staður henntar illa
kveðja Dögg

miðvikudagur, júlí 07, 2004

ABDEOST

Jæja þá skal ég skrifa aðeins meira...en ég hef það nú samt á tilfinningunni að það sé enginn inni á þessari síðu nema ég og Thelma. Jæja núna í augnablikinu er ég með þrjá öskurapa í kringum mig. Held reyndar að þau séu að fara út (YES) en ég veit ósköp vel að það verður nú ekki lengi (það verður ráp í ca 15 mín en svo gefast þau upp og koma inn) Börn í dag kunna ekki að leika sér úti...eða inni. Ok þá eru þau farin út. Annars er ósköp fátt að frétta af mér nema ég er að reyna að finna mér einhver föt til þess að vera í í brúðkaupinu og það stúlkur mínar gengur ekki vel. Hvað segirðu annars Elsa...er ekki alveg leyfilegt að vera á Evu-klæðunum ;o) Dúbbí dú...
Af fiskunum er allt gott að frétta...var nú reyndar að vonast til þess að þeir færu að D R E P A S T... en af einhverjum óútskýranlegum ástæðum þá virðast það ekki vera að gerast.
Fleira var það ekki í fréttum í bili þannig að ....ADIOS AMIGOS

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Stelpa, stelpa, stelpa.....;-)

Blessuð Sveiga....þú mátt alveg líka skrifa eitthvað bitastætt handa okkur....;-)

Annars er ég byrjuð að vinna á fullu og það var nú aðeins meira að gera í dag heldur en í gær, þannig að þetta er allt að koma, er bara enn að komast inn í allt. Hann Rúnar Örn datt reyndar á hausinn í dag í leikskólanum og við héldum að hann hafi fengið gat vegna þess að það blæddi svo mikið fyrst, en nei sem betur fer fékk hann aðeins kúlu og smá skrámu þannig að það þurfti ekkert að sauma eða plástra....sem betur fer! En ég fór nú samt með hann til læknis til vonar og vara.

Enn styttist í brúðkaupið hjá Elsu og Fjalari og er maður að verða frekar spenntur....bara fjórir dagar til stefnu....hvernig líður þér annars Elsa??? Bara að verða eiginkona fljótlega :-)

Stelpa, stelpa, stelpa.....;-)

Blessuð Sveiga....þú mátt alveg líka skrifa eitthvað bitastætt handa okkur....;-)

Annars er ég byrjuð að vinna á fullu og það var nú aðeins meira að gera í dag heldur en í gær, þannig að þetta er allt að koma, er bara enn að komast inn í allt. Hann Rúnar Örn datt reyndar á hausinn í dag í leikskólanum og við héldum að hann hafi fengið gat vegna þess að það blæddi svo mikið fyrst, en nei sem betur fer fékk hann aðeins kúlu og smá skrámu þannig að það þurfti ekkert að sauma eða plástra....sem betur fer! En ég fór nú samt með hann til læknis til vonar og vara.

Enn styttist í brúðkaupið hjá Elsu og Fjalari og er maður að verða frekar spenntur....bara fjórir dagar til stefnu....hvernig líður þér annars Elsa??? Bara að verða eiginkona fljótlega :-)

Stelpur stelpur stelpur

Þið sökkið feitt í þessu bloggi...Hvað er málið!!!
Þið verðið að fara að taka ykkur á og skrifa eitthvað inn á þessa síðu og hana nú
Kveðjur...

sunnudagur, júní 27, 2004

Góðan og blessaðan daginn

Takk stelpur fyrir frábæra skemmtun í gær. ELSA ÞÚ VARST FRÁBÆR GÆS...Verðum svo að kíkja á myndirnar :o)
Ég er bara farin að hlakka til brúðkaupsins ef það verður svipað stuð og í gær.
Hvernig er svo heilsan hjá öllum...Elsa heldurðu að Fjalar komist út!!!
Ég er að spá í að skella mér á dansnámskeið fyrir brúðkaupið svo ég verði mér nú ekki til skammar ef sumir herramenn fara nú að bjóða manni upp í dans eins og í gær (nefnum engin nöfn en það byrjar á RÚNAR. Bryndís þú hlýtur að vera í góðu formi eftir að dansa...eða eigum við að segja að vera snúið í MARGA hringi á gólfinu af Rúnari).
Hvað segiði svo...eru allar í stuði fyrir Esjugöngu..held ég treysti mér nú ekki í þá göngu í dag :o) Held svei mér þá að hjartað myndi ekki ráða við það.

Jæja skvísur við heyrumst og sjáumst

fimmtudagur, júní 24, 2004

Spotklúbbur Háks

Sælar allar
Við Thelma og Ólöf riðum (eða eiginlega hlupum) á vaðið í gærkvöldi í nýstofnuðum sportklúbb og fórum í jónsmessuhlaup í laugardalnum. Við hlupum 3 km hring umhverfis dalinn í fjölmennum hópi og stóðum okkur frábærlega. Það er að mínu mati alltaf afrek að fara út að hlaupa í rigningu. Ég kíkti svo í sund á eftir og þar eru greinilega allir sætu strákarnir, í sundi eftir útihlaup (Sigurveig þú hefðir átt að koma með). Í framhaldinu var pæling um gönguferð á Esjuna. Fyrst ég er í fríi um helgina hvað segiði um eftirmiðdag á laugardag eða sunnudag. Ég er að fara í mat til bekkjasystur minnar á laugardagskvöldið, þannig að um kl þrjú myndi henta mér vel, en ef veðrið er lélegt getum við líka beðið fram til sunnudags eða jafnvel eitthvað kvöld í vikunni.
Comments please
Kveðja Dögg

fimmtudagur, júní 17, 2004

Efni frá Dögg....

Frá Thelmu: Jæja þetta tók ég af bloggsíðunni hennar Daggar....er nefnilega ekki viss um að neinn af okkur viti af henni....skemmtlegar pælingar frá henni, þannig að nú er tilvalið að lesa það sem hún Dögg hefur að segja um ræktina og fleira!!!

Frá Dögg: Jæja nú eru allir komnir heim eftir útskriftarferðir og þó að nokkrar veislur séu framundan má segja að við séum komnar í sumarfrí. Hvernig lýst ykkur á að við tökum upp þráðinn frá því síðasta sumar og förum að hittast í ræktinni og lyfta. Kannski 3- 4 sinnum í viku. Ég sting upp á mán,mið og föstudögum klukkan 17. Mig langar líka endilega að skipuleggja einhverja gönguferð, við getum kannski byrjað á Esjugöngu núna þegar veðrið er orðið svona gott og ákveðið framhaldið í kjölfarið af því. Ég lýsi hér með eftir góðum hugmyndum. Ein enn pæling, hverjir eiga línuskauta??

Dögg

Frá Thelmu: nei Dögg við eigum ekki línuskauta eins og er, en við erum með hjól ef einhver er til í hjólreiðatúr einhverntímann???

mánudagur, júní 14, 2004

Hallo

Ja ja Bryndis eg er alveg til i ad verda platfraenka lika thvi eg er ekki ad verda neitt alla vegana ekki strax. Annars var helgin bara fin hja mer. Fraenka min var her i London svo hun baud mer ut ad borda a uppahaldis veitingastadinn minn, triggja retta maltid mmmmm mjog gott. Svo for eg a strondina i Brighton, tad var nu ekki eins heitt og a Spani hja ter Thelma og ekki eins "mjuk" strondin. Tad er semsagt steina strond tarna...en fekk to lit ;) bara fin ferd. Er semsagt nuna ad laga bringuna mina, tad er sidan myndataka a midvikudagin, verd ad muna ad kaupa blod fyrir tad.
Eg held afram ad fylgjast med ykkur.
Asta

föstudagur, júní 11, 2004

frábær hugmynd

Mér líst mjög vel á að þið komið með bjór. Ef það eru einhverjir úr veislunum ykkar stelpnanna sem vilja samfagna með okkur fram eftir kvöldi þá eru þeir auðvitað velkomnir í party. Hef haldið 40 manna party án vandkvæða í íbúðinni þannig að pláss ætti að vera nóg. JEI DJAMM

Dögg

Við erum komin heim!!!

Jæja þá erum við komin heim frá Spáni eftir mjög vel heppnaða ferð....fyrir utan það að hann Rúnar Örn týndist á troðfullri ströndinni í rúman hálftíma....og móðir hans fékk vægt taugaáfall þegar hún fann hann ekki strax, en allt er gott sem endar vel....en annars var ferðin mjög skemmtileg og mikið var skoðað og gert þessar tvær vikur! Við fengum mjög gott veður allan tímann og maður nældi sér auðvitað í smá brúnku og meira að segja er hann Rúnar Örn kominn með hvítann rass....þ.e. flott sundskýlufar!! Það eru komnar fullt af myndum inn á barnaland síðuna hans þannig að endilega skoðið þær!

Auðvitað beið barnið þeirra Bryndísar og Rúnars eftir okkur vegna þess að það er svo stillt og gott barn. Ég var búin að hvísla því að barninu að það mætti alveg bíða eftir að koma í heiminn þangað til að við kæmum heim og auðvitað hlýddi það....þetta verður alveg yndislegt barn, enda á það líka alveg pottþétta foreldra!! ;-)

Þannig að það verður sem sagt mikið púsluspil hjá flestum 19.júní í að reyna að komast á milli veisla!! Okkar veisla er sem sagt á milli klukkan 15-18...var samt að sjá það að athöfnin eigi ekki að byrja fyrr en klukkan 13 og standa til klukkan 15:30...en ég sendi bara mömmu fyrr heim til að taka á móti gestunum...gleymdi nefnilega að athuga hvað athöfnin væri lengi áður en ég sendi boðskortin....en það hlýtur að reddast! Mikið líst mér annars vel á að Dögg haldi partý um kvöldið, var farin að hafa áhyggjur um að það myndi ekki vera neitt partý þetta kvöld. En ef þú vilt Dögg, þá getum við komið með allavega 2-3 kassa af bjór til þín til að halda fólkinu vel fullu...getum keypt þá af pabba Jóa;-) Væri það ekki bara tilvalið? Endilega láttu mig allavega vita hvernig þér líst á það...við myndum auðvitað splæsa bjórinn!

Já og til hamingju með afmælið um daginn Sigurveig!

þriðjudagur, júní 08, 2004

Vantar ykkur kött ??

hæ hæ allir bloggarar

ég ákvað að láta aðeins í mér heyra, eins og Ólöf sagði er ég bara enn að bíða og bíða og ekkert er að gerast. Ég er þessa stundina alveg að verða klikkuð á þessum ketti mínum, hann er gjörsamlega ofvirkur, hann hleypur núna hérna fram og tilbaka inn og út úr stofunni upp í sófa og niður og spólar þvílíkt á parketinu svo að hárin rísa á mér. Hann er ekkert að spá í að eitthvað sé fyrir, hann þarf bara að hlaupa og riður öllu niður sem verður á vegi hans. Áðan ruddi hann niður myndum sem voru í sófanum oohhh ég er svooo pirrruð út í hann. Vitið þið ekki um einhvern sem vantar kött endilega látið mig vita.
En allavega þá gekk skoðunin ágætlega, blóðþrýstingurinn er aðeins í hærri kantinum, hann er örugglega töluvert hár núna allt þessum ketti að kenna. Svo á ég að fara í mónitor á fimmtudagsmorgunin þar sem fylgjast á með fósturhljóðum og samdráttum í legi en ég vona samt að barniið verður bara komið áður svo ég þurfi ekki að sitja þarna í klukkutíma. En kannski verður Thelmu bara að ósk sinni að ég eignist ekki barnið fyrir hún komi tilbaka. Jæja við heyrumst síðar, kveðja Bryndís

Auðvitað er útskriftarveisla

Ég ætla að halda svaka fína útskriftarveislu þann 19 júní, er enn í post ferðafasanum og er því ekki farin að hafa samband við fólk. Geri það um helgina. Ég og mamma höfum verið í miklum samningarumræðum um þessa veislu, hún vill hafa allt voða hefðbundið en ég vill ekki hafa neitt hefðbundið. Hún hristir höfuðið og sýpur hveljur yfir matarvali og öðru fyrirkomulagi en ég ræð nú flest öllu. Ég get því lofað óhefðbundinni útskriftarveislu þar sem ferðasagan til tælands verður kynnt auk þess sem áhersla verður á tælenska menningu. Sem sagt þemaveisla, þar sem þema er allt sem Dögg finnst skemmtilegt. Mömmu finnst þetta voða sjálfhverft og ég eigi að vera "passífari" og lítillátari. Ég fer að halda að mamma mín þekki mig ekki neitt!!!! Stefnt er á mat milli 5 og 7 og svo party fram eftir kvöldi. Ykkur og mökum er að sjálfsögðu öllum boðið og ég býð mig fram í partyhald fram eftir kvöldi fyrir allan hópinn. Það verður bolla á staðnum.
Kveðja Dögg

mánudagur, júní 07, 2004

HÆ HÓ

Í gær varð ég ekki fyrir skemmtilegri lífsreynslu! Ákvað að prenta út e-miðann minn til Osló og uppgötvaði þá mér til hryllings að brottfarardagur var skráður 3.júní í stað fyrir 5. ágúst! Fann hvernig adrenalínið streymdi út í æðarnar og hvernig hendurnar byrjuðu að titra (klassískt stresseinkenni hjá mér:). Það versta var að ég gat ekki hringt í Flugleiðir þar sem allt var lokað hjá þeim um kvöldið (bölvaðir dónar að hafa svona lokað á sunnudagskvöldum..). Fór síðan í morgun með algjöran hnút í maganum og hálf þunglynd á sölustað þeirra og þessu var reddað í einum hvelli, ekkert mál. Ég held að aumingja FLugleiðakonan hafi sárvorkennt mér þar sem ég bar mig svo hrikalega illa. Ég virðist stundum hafa þannig áhrif á fólk að það haldi að ég fari að grenja eða eitthvað! Skil þetta ekki.
Ég er semsagt enn á leiðinni til Osló og hlakka ekki smá til. Ákvað ég að deila þessari litlu reynslusögu minni með ykkur til að halda blogginu okkar gangandi:)
Heimsótti Bryndísi eftir skóla í dag (ég var að afhenda einkunnir, er semsagt búin núna í Hólabrekkuskóla) og ég get lofað ykkur því að það er enn barn í maganum, ég endurtek, það er enn barn í maganum. Við bíðum því enn allar spenntar :)
Heyri í ykkur vonandi fyrr frekar en síðar og Elsa, takk fyrir boðskortið og þú líka Thelma. Dögg: verður þú með einhverja útskriftarveislu??
Kv. Ólöf Birna

föstudagur, júní 04, 2004

Dögg er loksins búin að læra að blogga

Halló stelpur
Nú er ég komin frá Tælandi. Þessi ferð var dásamleg. Það var ekki einn dagur sem hitinn fór undir 32° C og sjórinn var 27°heitur. Við gistum á 4 stjörnu hóteli sem leit út eins og höll. Þetta voru litlar íbúðir sem voru innréttaðar í Tai stíl og svalirnar vísuðu út í sundlaugargarð. Við vorum á annarri hæð en hótelið er hannað eins og 2 hæða raðhús. Starfsfólkið var yndislegt og fannst við vera voða brosandi hópur (af hverju ætli það sé?). Það var spa á hótelinu og ég fór í dekur annan hvern dag. Það voru tvær strandir í 5 mín göngufjarlægð frá hótelinu og litlar mjög ódýrar verslanir út um allt. Ég fór í 4 ferðir, það á meðal safarí, fílareiðtúr, gönguferð í frumskógi og sturtu í fossi í frumskógi, sjókajak, sjókano, snorkeling, kafaði 2 x og skoðaði eyjur í kringum litlu eyjuna okkar. Ég borðaði úti á hverju kvöldi og eingöngu thai mat og slapp því alveg við að fá í magan. Við djömmuðum nokkrum sinnum en aðallega var bara slappað af. Ég stefni á myndasýningu heima hjá mér einhvern tíman fljótlega. Ég er að fara á ráðstefnu norður í landi um helgina en langar bara ekket til að fara því ég er orðin frænka. Stóri bróðir eignaðist 12 marka stelpu, Auði Katrínu, 29 maí. Hún er alveg yndisleg en svolítið gölluð á annarri mjöðminni og þarf að vera í spelku næstu 3 mánuðina. Mig langar bara að vera heima og knúsa hana.
Kveðjur Dögg Taifari

þriðjudagur, júní 01, 2004

Til hamingju med afmaelid Sigurveig, tarna um daginn...og velkomin i hopinn, tad var soldid einmanna svona einn. Ma eg koma med sem farangurinn tinn Olof til Oslo, eg vaeri alveg til i ad fara tangad.
Annars er allt gott ad fretta hedan, thad var long helgi her lika. A sunnudaginn for eg i piknik i Hyde Park bordudum pasta og drukkum hvitvin og svo sukkuladi koku tvi vinkona min atti afmaeli mmmm, svo fengum vid sma solskin. A Manudaginn for eg sidan i hadegis mat til inderskrar vinkonu minnar og hun eldadi audvitad godan indverskan mat....ekki sterkan bara fyrir mig. Svo saum vid Harry Potter hun var bara god.
Vonandi var maturinn godur hja ykkur um helgina, heyri i ykkur seinna.
Asta

Jibbý

Jæja, ég er víst á leiðinni til Osló í sumar jibbý jey jey :)
Ákvað að fjárfesta í miða í morgun og mun ég eyða Verslunarmannahelginni í Osló. Ég bíð spennt eftir að komast í H&M.. eins gott að byrja að spara strax í dag!
Sjáumst.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Matarklúbbur

Við erum að hugsa um að halda matarklúbb um helgina, hvort finnst ykkur sniðugara að hafa hann á sunnudagskvöldið eða mánudagskvöldið? Kemur Elsa ekki heim á sunnudagskvöldið það er spurning hvort við eigum að bíða eftir henni og þá er náttúrulega ekki frí daginn eftir eða að hafa hann bara á sunnudagskvöldið. Látið mig vita ég get haft hann hvort kvöldið sem er.

Til hamingju með afmælið, Sigurveig : )

Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún Sigurveig
hún á afmæli í dag.

Jibbý jibbý vei vei.
Nú eru tveir Háksmeðlimir orðnir 27 ára! Við verðum að fara að hægja á þessu takk fyrir. Það er svindl að Bryndís og Dögg séu yngstar...

dinner club

Halló Hákarar.
Datt í hug að spyrja hvort við vildum ekki skella saman fámennum matarklúbbi? Ég er ekki að leggja pressu á Bryndísi og Rúnar en datt bara í hug að það yrði gaman að hittast um helgina þó svo það vanti marga þar sem flestir eru í útlöndum. Ef ekki er vilji fyrir matarklúbbi hvað segið þið um að hittast samt? Ég er til (vona að ég fái einhverjar undirtektir, annað væri grunsamlegt...;) )
kv. ólöf

miðvikudagur, maí 26, 2004

Fréttir af Dögg

Sælar skvísur.
Það er allt gott að frétta af Dögg... hún nýtur lífsins úti í Tælandi. Það er nudd, handa og fótameðferð og alles og reynt að fara á hverjum degi. Hún skrapp í safaríferð, fór á fílabak og sigldi á bambusfleka niður á. Fínn hiti og sjórinn fínn.
ALLT ALVEG ÆÐISLEGT. Svo verður hún bara að halda myndakvöld enda er hún alveg að fríka út daman í myndatökunum.
Adios amigos...

mánudagur, maí 24, 2004

Vörnin búin og við á leið til Spánar eftir 3 daga!!!

Jæja þá er vörnin loksins búin og við getum farið að hlakka til Spánarferðarinna. Vörnin gekk bara mjög vel, þannig að næst á dagskrá er Spánn, úrskrift, sumarfrí með honum Rúnari og svo byrja að vinna 1.júlí...:-)...sem sagt nóg að gera framundan.

Annars ætlum við að hittast heima hjá mér upp úr 8 annað kvöld (þ.e. þriðjudagskvöld 25.maí og kveðja ykkur og sjá hana Bryndísi áður en hún á að eiga....vil nefnilega sjá kúluna í síðasta sinn ef hún skildi nú fæða litla krúttið á meðan við erum í sólinni!!!

Það besta sem hann Rúnar sagði í dag í leikskólanum við allar fóstrurnar var það að við værum að fara að gifta okkur á spáni...., en hann sagði; "sko mamma og Jói pabbi ætla að gifta sig á Spáni....ég ætla ekki að gifta mig heldur mamma og pabbi!!!! Við komum auðvitað alveg af fjöllum þegar fóstrurnar spurðu okkur vegna þess að það er allavega ekki í bígerð á næstunni hjá okkur :-) Ohhhh þessi börn eru svo mikið krútt! Sonur hennar Söru, hann Alfonso Birgir, er nefnilega með honum á leikskóla og hann er núna á Spáni og þau eru að fara að gifta sig í sumar á Spáni, þannig að hann Rúnar heldur greinilega að allir sem fara til Spánar gifti sig í leiðinni.....ekki slæmm hugmynd samt!!!

Jæja ætla að fara að koma litla kút í háttinn og njóta þess að vera með honum á morgun vegna þess að hann Rúnar er núna kominn í sumarfrí í leikskólanum.

Bæjó....og verið nú duglegar að blogga!!!

fimmtudagur, maí 20, 2004

Strákastand ;o)

Jæja þetta var eitt það fyndnast sem ég hef upplifað hjá dóttur minni :o) Á mánudaginn vorum við staddar í Jakaselinu þegar það er hringt og spurt eftir Heiðu Björgu. Heiða Björg tekur við tólinu og byrjar að tala og allt á léttu nótunum og svo kveður hún. Við spyrjum auðvitað voða forvitnar hver þetta hafi nú verið og hún tilkynnir okkur það að þetta hafi verið hann Axel Þór Axelsson....Við erum ekki alveg að ná því hvernig hann fékk númerið í Jakaseli!!! Stuttu seinna er hringt og Heiða Björg svarar...hún heyrir að þetta er strákurinn aftur og fer því inn á baðherbergi og lokar að sér til að fá frið fyrir móður, ömmu og frænkum (sem lágu í kasti frammi í stofu). Svo þegar samtalið er búið kemur hún fram og tekur það skýrt fram við mig að hún vilji ekki ræða þetta mál frekar við mig og hleypur upp stigann :o) Ég hélt ég yrði ekki eldri. Heiða Björg bara byrjuð á gelgjunni og komin á séns hehehehe

þriðjudagur, maí 18, 2004

hey

Vodalega er eitthvad dautt a tessari sidu, allir voda bissi. Hvernig var helgin hja ykkur. Hja mer var hun bara frekar roleg, for samt a djammid a laugardagin og profadi eitthvad nytt..... 60's mod klubb, sem var bara agaett en for fyrst a isl. evrovisjon party bar, og hitti tar gamla bekkja systur mina bara ovaent. Annars er alltaf gott vedur herna yfir 20 stig og sol, mjog fint. Any way verd ad fara finna banka...engin vill lefifa mer ad fa mer banka reikning...asnalegt!!
Heyrumst Asta

miðvikudagur, maí 12, 2004

Hallo

Heyrdu hvad vard um kommentid, verd eg alltaf ad gea tetta svona??
Asta

Lísa eignaðist litla stelpu í morgun!!!!

Hæbb hún Lísa sendi mér sms áðan og lét mig vita að þau eignuðust litla stelpu í morgun. Hún var 11,4 merkur og 48 cm löng. Bara að leyfa Bryndísi að fylgjast með fyrst að þær voru nú saman í foreldrafræðslu.....

En hvernig líður þér annars Bryndís? Eru komnir einhverjir fyrirvaraverkir??? Ef barnið kemur ekki fyrir 27.maí, viltu þá lofa því að halda því inni þar til eftir 10.júní vegna þess að þá erum við komin heim frá Spáni og mig langar ekki að missa af því þegar það loksins fæðist!!!....ein að láta sig dreyma!

Jæja ég má víst ekki blogga fram að ritgerðarskilum, þannig að ég læt þetta bara duga í bili og ég læt heyra í mér eftir að ég er búin að skila þessari blessuðu ritgerð....

þriðjudagur, maí 11, 2004

hellú

Hvað á það að þýða hjá þessu blogg fólki að breyta öllu útliti á blogg-vinnusíðunum? Ferlega óþægilegt... En nóg um kvart.
Krummi fór í geldingu í gær og var eins og slytti fram eftir öllu kvöldinu. Greyið var eins og drukkin kisa er hann reyndi að labba. Núna, daginn eftir og hormónalaus, þá er hann orðinn prýðisköttur. Horfir bara á mig lygndum augum og vill helst liggja og sofa uppi í rúmi ofan á hausnum mínum!
Það er loksins komið á hrein hvar ég verð að kenna næsta vetur. Ég mun verða í Hjallaskóla að kenna líffræði, eðlis og efnafræði á unglingastigi! Þetta er akkúrat staðan sem mig langaði í þannig að ég er sátt. Ég mun eflaust kenna þó eitthvað áfram í Hólabrekkuskóla núna fram á vor þar sem kennari 7 ára bekkjarins er enn veik. Krakkarnir eru bara fínir þó svo ég þurfi svona annað slagið að minna þau á það hver stjórnar.
Jæja, senn fer að líða að próflokum eða ritgerðarlokum hjá vissum Hákum þannig að vonandi fer eitthvað að hressast hér á síðunni.
Adios amigos.

Ups gleymdi ad skrifa nafnid mitt eg er sem sagt Beaker mimimi
Asta

Beacker jpeg
You are Beaker.
You are very tense, stressed and paranoid. You hate
furthering the cause of science, as it tends to
get you blown up.

SPECIAL TALENTS:
Scientific assistant, Victim
LAST BOOK READ:
"1001 Meeps to a Bigger Vocabulary"

FAVORITE MOVIE:
"Run Silent, Run Meep"

QUOTE:
"Meep! Meep! Meep!"

NEVER LEAVES HOME WITHOUT:
Medical Coverage


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla
Eg er lika kermit en langadi ad setja eitthvad nytt svo eg klikkadi alltaf a "please don't hurt me"

mánudagur, maí 10, 2004

Kermit líka

kermit.jpeg
You are Kermit the Frog.
You are reliable, responsible and caring. And you
have a habit of waving your arms about
maniacally.

FAVORITE EXPRESSIONS:
"Hi ho!" "Yaaay!" and
"Sheesh!"
FAVORITE MOVIE:
"How Green Was My Mother"

LAST BOOK READ:
"Surfin' the Webfoot: A Frog's Guide to the
Internet"

HOBBIES:
Sitting in the swamp playing banjo.

QUOTE:
"Hmm, my banjo is wet."


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

Ég er Scooter.....veit ekki alveg hver það er!!!

scoot jpeg
You are Scooter.
You are a loyal, hardworking person, better known
as a doormat.

SPECIAL TALENTS:
Going for stuff.
LEAST FAVORITE MOVIE:
"Go For Broke!"

QUOTE:
"15 seconds to showtime."

LAST BOOK READ:
"300 New Ways to Get Your Uncle to Get You a
Better Job "

NEVER LEAVES HOME WITHOUT:
Coffee, clipboard, and Very Special Guest Stars.


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

Hvaða prúðuleikari ert þú???

Ég er Kermit!!

kermit.jpeg
You are Kermit the Frog.
You are reliable, responsible and caring. And you
have a habit of waving your arms about
maniacally.

FAVORITE EXPRESSIONS:
"Hi ho!" "Yaaay!" and
"Sheesh!"
FAVORITE MOVIE:
"How Green Was My Mother"

LAST BOOK READ:
"Surfin' the Webfoot: A Frog's Guide to the
Internet"

HOBBIES:
Sitting in the swamp playing banjo.

QUOTE:
"Hmm, my banjo is wet."


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, maí 06, 2004

Sælar!

Jæja, þá er ég búin að kenna í 4 daga! Mér fannst það ganga í fyrsta skiptið vel í dag þar sem ég hafði loksins mjög góða stjórn á bekknum. Var ógeðslega frek og leiðinleg og virðist það vera það eina sem virkar eins og er. Þá verð ég líka rosalega góð þegar ég leyfi þeim að fjá leikstund eða eitthvað svoleiðis. Ákvað að þræla þeim út í stærðfræði og skrift í dag. Finnst reyndar miklu erfiðara að kenna að draga frá (mínusa) heldur en eitthvað miklu mun flóknara í líffræði! Reyndi og reyndi að útskýra fyrir nokkrum að 240 - 200= 40 og þeim fannst þetta svo erfitt (ekki öllum). Ég er búin að þurfa að kúpla mig nokkuð mikið niður í fræðunum!
Ég veit ekki enn hvort ég verð að kenna þeim fram í júní, það virðist sem að kennarinn þeirra sé enn veik þannig að þetta mun eitthvað verða fram í mai, held ég. Svo er ég búin að heyra mjög mismunandi sögur af þessum bekk sem ég verð að kenna næsta vetur, eiginlega allt slæmt þannig að ég sé bara hvernig það fer...
Heyrumst !
Kveðja.

þriðjudagur, maí 04, 2004

Langt síðan ég hef bloggað

Hæ hæ
hvað segið þið gott þessa dagana??
Ég segi allavega bara allt gott, mér líður bara vel núna en undanfarna daga var ég farin að finna pínu fyrir í bakinu og einhver magakveisa hefur verið að hrjá mig. Ég ákvað þess vegna að minnka við mig vinnuna og er því byrjuð að vinna bara hálfan daginn. ég finn mikin mun á mér eftir það, ég var görsamlega búin eftir að vinna alveg til fimm. Það eru nú líka bara 4 vikur eftir svo ég er aðeins að trappa mig niður smátt og smátt. Ég fór í skoðun í morgun og var bara allt í fína með barnið og sagði ljósan að barnið yrði nú örugglega ekki minna en 16 merkur, en það er kannski ekki skrítið fyrst báðir foreldrarnir voru fæddir frekar stórir, ég 18 og Rúnar 15. Næst á ég að fara í skoðun eftir viku og fer ég nú vikulega alltaf, úff þetta er óhugnalega stutt í þetta.
Það er það að frétta af Snúði hástökkvara að hann er tiltölulega nýbúinn að ná sér eftir flugið niður út um gluggann að hann greyið þarf að ná sér núna eftir geldingu í dag. Hann er afskaplega druslulegur köttur í dag og gekk um eins og hann væri dauðadrukkinn, greyið er búin að þurfa að þola ýmislegt undanfarna daga.
jæja stúlkur, þið sem eruð í prófum og verkefnavinnu, gangi ykkur vel og ég bið að heilsa öllum hinum líka, sjáumst vonandi sem fyrst
kveðja Bryndís

lítil prinsessa fædd...

Ætlaði bara að leyfa Ólöfu að fylgjast með...hún Heiðrún átti litla dömu á föstudaginn(30.apríl). Rúmar 13 merkur og 51 cm. Fæðing gekk rosa vel (var komin í heiminn tveimur tímum eftir að fyrstu verkir fóru að gera sér vart). Fylgjan kom ekki öll út þannig að það blæddi rosalega og Heiðrún svæfð og send í aðgerð. Fékk svo blóðgjöf í gær og heim í gærkveldi.
Spurning hvort Sólveig fari að koma með eina litla stelpu eftir ár (þar sem hún gerir þetta alveg eins nema bara alltaf ári á eftir ;o)
Stuðkveðjur

Próf númeró unó

Góðan daginn skvísur. Jæja þá fer að styttast í fyrsta prófið mitt...sem er klukkan 13:30 í dag :o) Vá hvað ég hlakka EKKI til. Annars er ósköp lítið að frétta af mér, átti heima uppi í Tækniháskóla um helgina en það er alveg ágætist skóli (allavegana fínt að læra þar).
Heyrði í Dögg í gærkveldi, hún er bara að plumma sig vel í prófunum. Hún var nú reyndar eitthvað ósátt við prófið í gær en mér fannst nú engin ástæða fyrir hana að vera óánægð. Hún er frábær í sínu fagi.
Ætli það sé ekki best að kíkja bara aðeins í glósurnar áður en ég legg af stað.
Adios amigos

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Miðvikudagur kominn og helgin fer að nálgast. Er e-ð planað hjá ykkur um helgina? Strákarnir ætla að hittast á fös og spila tölvuleik held ég. Eigum við ekki að hittast og gera e-ð skemmtilegt? Ég er opin fyrir öllu ;) Hvað segja stúlkur?

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Prufið þetta:

People, this is real funny...you gotta try!

LEFT BRAIN RIGHT BRAIN
This is one of the strangest things I have ever encountered.
Left brain, right brain.
While sitting at your desk,lift your right foot off the floor and
make clockwise circles.
Now, while doing this,draw the number "6" in the air with your right hand.
Your foot will change direction and there's nothing you can do about it.

Hallo

Vill einhver koma med mer a Placebo tonleika i juli? Eg veit ad Elsa & Fjalar og Olof &Ruben eru ekki ad fara. Endilega ad lata mig vita med sms-i.
Asta

mánudagur, apríl 26, 2004

Guten tag!

Rosalega líða þessar helgar hratt alltaf. Eins gott að það er gott í sjónvarpinu í kvöld, það reddar alveg mánudögunum. Ok, helgin hjá mér var alveg rosa fín. Á föstudaginn fór ég í grillveislu til Ingu Lilyar þar sem við grilluðum dýrindis lambakjöt með öllu tilheyrandi, horfðum á Friends og Idol og síðast en ekki síst Ungfrú Reykjavík! Það var haldið veðmál eins og vanalega og 2 bjórar á mann settir í pottinn. Þetta var mjög spennandi en mín ungfrú vann ekki neitt : ( Á laugardaginn fórum við svo á árshátíðina í vinnunni. Hún var á Brodway og heppnaðist alveg frábærlega. Maturinn var æði og skemmilegir veislustjórar (Simmi og Jói). Við Fjalar unnum bæði í happdrættinu, hann vann út að borða fyrir 2 á Argentínu og ég á Hótel Holt : ) Í svörtum fötum spiluðu svo og við dönsuðum til 3. Gærdagurinn fór nú bara í leti og hangs upp í sófa og svo skelltum við okkur á Kill Bill í gærkvöldi. Ég mæli með henni, hún er rosa góð.

Mánudagur - O.C. Survivor C.S.I.

Jibbý jibbý, sjónvarpsdagurinn minn er kominn og mættur. Reyndar súrt að helgin sé liðin en mánudagurinn bætir það upp með góðri sjónvarpsdagskrá hjá Skjá einum. Kvöldið hjá mér er semsagt planað!
Er gjörsamlega að kúgast yfir endalausri verkefnavinnu í skólanum. Sem betur fer er þetta að klárast og sumarið alveg að koma, jibbý.
Setti á gamla Roni Size/ Reprazent diskinn um helgina (New forms) og datt í flashback fíling. Langaði allt í einu að verða 22 ára aftur og skella mér á djammið á Thomsen. Já, það var gaman þá en það er líka gaman núna.
Jæja,
við verðum að passa að síðan deyji ekki og segi því : áfram bloggarar. EKki hætta að blogga.
kv.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

RIIIIISASTÓR BÝFLUGA HÉR HEIMA!!!!

ohhhh það er geðveikt stór býfluga hérna inni hjá mér sem mér tókst reyndar að veiða í glas......er ég ekki hugrökk, þurfti samt smá tíma til að mana mig upp í það???? Þetta er svo mikil hlussa að ég held bara að þetta sé drottning eða eitthvað, er allavega með tvo búka, sá aftari er frekar stór, svo er hún með alveg ógeðslega stóra og feita fætur (6 talsins), tvo mjög stóra vængi og svo er hún líka loðin og er svört og frekar ljósbrún á litin (frekar en gul og svört) og hún er röndótt....þannig að þetta getur ekki verið geitungur......eða er það......en Ólöf ég læt þig um að ákveða það, þú ert svo mikil pöddumanneskja og veist svo mikið um svona lagað!!! .......Já og svo drap ég reyndar eina litla könguló áðan heima hjá mér þegar ég var að sópa...alveg óvart!!! Þannig að Ólöf ef þig langar til að koma í dýraríkið hjá mér á ég nokkur gæludýr núna.....en því miður enga kisu sem leikfélaga fyrir Krumma ;-) Þessi býfluga er svo stór að ég er hálf smeik um að hún komist úr glasinu þó að það sé á hvolfi......;-( ooohhhhh ég þoli ekki býflugur og köngulær.......og einmitt þurfti þetta bæði að rata inn í íbúðina mína!!!! Ég er bara að bíða eftir að hann Jói komi heim til að sýna honum flykkið sem að ég veiddi alveg alein.....og svo fær hlussan frelsi á ný ef ég þori að sleppa henni, vona bara að hún fari nú ekki að ráðast á mig....greyið er orðin svo þreytt á að reyna að brjótast úr glasinu að ég hálf vorkenni henni.

Jæja vona bara að veika fólkinu fari nú að batna á næstunni og gleðilegt sumar allir saman!!!

Er farin að læra eitthvað og svo er bara að horfa á alveg ógeðslega spennandi þátt á stöð 1 í kvöld upp úr 11 sem heitir held ég "Illt blóð", en hann byrjar strax eftir "Sex in the city"....verðið að kíkja á hann!!!!

Hallo og gledilegt sumar

Ja tad er bara finasta vedur a sumardagin1. sol en sma ski og finn hiti. Var ad kynna verkefnid mitt nuna fyrir hadegi svo byrja a morgun ad kaupa fyrir tad, uff a eftir ad spreda peningum madur damn! A allan dagin eftir til ad slaka a, aetla hitta vinkonu og drekka bjor eda e-d i solskininu =)
Svo linuskautar er haettulegir vonandi batnar honum bradum.... Eg bara held tessari sidu gangandi ha.....eitt blogg kommon. Se til hvort eg bloggi e-d meira seinna.
Kvedja Asta.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

HÆ HÆ HÆ

Ákvað að blogga svona til að halda þessari síðu gangandi. Ekki mikið að frétta af mér. Var í Odda í morgun að vinna verkefni, verð í Odda á morgun að vinna verkefni.. Vei vei eða þannig. Keypti mér loksins skó í gær eftir dálitla leit. Þeir verða góðir í rigningunni í sumar og næsta vetur. Ég hefði geta verslað svona 10 pör og eitt þannig hundrað þúsund kalli en ákvað að láta ekki verða af því. Djöfull eru skór dýrir, sérstaklega svona sandalar sem duga í 3 mánuði.
Ruben er ekki í vinnunni eins og er þar sem hann datt á línuskautum og brákaði rifbein... Vonandi fer honum að batna ásamt aumingja Heiðu.
Heyrumst bara og gleðilegt sumar á morgun!

mánudagur, apríl 19, 2004

:o(

Nei Ólöf ég get ekki sagt að það sé allt fínt að frétta hér á þessum bæ. Er búin að vera í hjúkkustarfinu í allan dag. Búin að hringja út um allan bæ og hanga á læknavaktinni í einn og hálfan tíma :o( Heiða Björg þurfti að fá hita í gærkveldi aðra helgina í röð en í þetta skiptið fylgdi meira með. Hún er komin með 40 stiga hita og kom í ljós að hún er einnig með streptakokta og særindi í hálsi og er þar af leiðandi MJÖG aum í hálsinum (hægri hlið hálsins er bólginn og það má ekki snerta af því að það er svo sárt). Held að hún hafi aldrei verið svona veik áður, litla greyið. Hefur ekki orku í að borða og varla að drekka en maður pínir drykkinn nú samt ofan í hana.
Eeeeeeeeeeen af mér er allt fínt að frétta, var að klára eina ritgerð af þremur og stefni á að vera búin að ljúka þeim öllum fyrir lok næstu helgi ;o) (vinnur maður ekki best undir pressu!!!)
Jæja ætli það sé ekki best að hoppa upp í rúm til litla hitapokans míns sem er þó að krókna úr kulda...
Þangað til næst

Helgin búin.... jibbý!

Hljómar frekar öfugsnúið en miðað við að ég var að vinna föstudagskvöld, allan laugardag og allan sunnudag þá er ég mjög ánægð yfir því að helgin sé liðin. Ákvað í gær að taka með mér tölvuna í vinnunna þannig að ég gat lært og spilað Sims sem drap tímann alveg ágætlega.
Núna er hann Krummi litli byrjaður að fara alveg aleinn út og vill helst hanga þar. Ég var mjög stressuð fyrst og hélt alltaf að hann myndi týnast en það hefur hann allaveganna ekki enn gert. Skil núna tilfinninguna þegar að mömmur eru að setja krakkana sína í fyrsta skiptið á leikskóla...... Ég vona bara að það fari ekki einhver læða að tæla strákinn minn og notfæra sér hann. Hann verður sendur í geldingu um mánaðarmótin ha ha.
Nóg um kisutal. Er ekki bara allt gott að frétta af ykkur? Hefur einhver heyrt í Dögg (úbbs, ég er ennþá með kjólana hennar) og er ekki bara London fín, ásta??
Gleðilegt sumar á fimmtudaginn.
kv ólöf

sunnudagur, apríl 18, 2004

hummmm af hverju kemur bloggið ekki inn????

jæja þarf samt að hætta, bið kærlega að heilsa!!!

Hæbb!!!

Jæja nú er ég komin í bann þangað til 15.maí í að blogga vegna þess að þetta er of mikill tímaþjófur og ég þarf víst að halda áfram að skrifa BSc-ritgerðina mína!!! :-( En ég má þó kíkja á netið í 1/2 klst. á dag, þannig að ég skal vera dugleg að setja komment á það sem þið bloggið á þeim tíma, þannig að verið nú duglegar að setja niður fréttir handa mér þannig að ég hverfi nú ekki af yfirborði jarðar alveg eins og hún Dögg heitin.......;-)

Annars er bara allt ágætt að frétta af okkur, við erum bæði að fara yfir um af stressi þessa dagana vegna þess að það er svo mikið eftir að gera í ritgerðunum okkar og vinna úr niðurstöðum, en lokaskil á ritgerðinni er 15.maí.......vörnin er 21.maí (hugsanlega samt aðeins seinna)......en svo er náttúrulega Spánn 27.maí......jibbý!!! Og svo byrja ég ekki að vinna fyrr en 1.júlí, þannig að ég og Rúnar Örn fáum gott sumarfrí saman, en hann Jói þarf að byrja að vinna um leið og við komum til baka frá Spáni.

Jæja má víst ekki hanga lengur í tölvunni í bili, verið nú duglegar að segja mér fréttir......og já Elsa, ertu til í að senda mér bréfið um Barselóna sem að hún Elsa Steinunn sendi þér, fínt að hafa smá hugmynd um það sem hægt er að skoða þar.......

Bæjó spæjó!!!!

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Já heyriði ég bíð framm stofuna mína ef það er í lagi ykkar vegna FRÍR BJÓR...eða bara kaffi eða bara vatn eða eitthvað og....nammi. Ef þið drekkið kaffi þá skal ég spá í framtíðinna fyrir ykkur =)
Ásta =)

Jæja pæjur

Nú er bara alveg að koma helgi. Er e-ð planað hjá ykkur annað kvöld? Ásta er að fara út á laugardaginn og því væri alveg upplagt að hittast á morgun við stelpurnar. Strákarnir eru búnir að plana tölvukvöld á morgun heima hjá okkur. Er einhver sem býður fram húsnæðið sitt? Við gætum líka farið á kaffihús eða e-ð þannig. Hvað segið þið?

föstudagur, apríl 09, 2004

GLEÐILEGA PÁSKA

Langaði bara til að óska ykkur gleðilega páska! Fá ekki allir fullt af páskaeggjum??? Allaveganna hann Rúnar litli.
Ég fæ eitt egg númer 4, egg sem ég keypti mér sjálf!!
Við verðum svo bara að endurtaka djammið aftur. Fara bara upp í bústað eða eitthvað, þeas ef einhver á bústað.

Gott framtak hjá þér Thelma að setja inn myndir. Jibbý!

JIBBÝ!!!

kominn myndasíða handa okkur!!! Er samt enn í vinnslu.....

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Takk fyrir síðast :o)

Takk stelpur.......og strákar fyrir frábært kvöld. Ruben á heiður skilið fyrir frábæran mat og auðvitað Ólöf líka fyrir að hjálpa til ;o) Ligg núna uppi í rúmi og er að biða eftir Makkaranum sem mamma ætlar að kaupa handa mér. Ekki það að ég sé þunn heldur er ég bara að fyrirbyggja að það gerist. Elsa margarítusnillingur stóð sig með prýðum og verður bara í þessari deild í framtíðinni. Ekki má gleyma frábærum drykkjuleik...ég hef bara ekki skemmt mér svona í mörg ár :o)
Jæja maturinn er mættur á svæðið
tjá

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Ola senjoritos

Jæja, nú styttist í kvöldið sem við erum allar búnar að bíða eftir Úff, nú er ég gjörsamlega að springa, það var kókosbollu eftirréttur, 5 tegundir af ís og lindt rauðar kúlur eftir matinn áðan. Það væri gott að fá sér kríublund núna. Allavega, þá líst mér mjög vel á að djamma heima hjá Thelmu og Jóa í kvöld. Þá förum við fyrst til Ólafar og Rubens og getum svo komið við heima og náð í margarítudótið á leiðinni til Thelmu og Jóa. Við vorum með einhvern líkjör í þessu síðast þ.a ég ætla að kíkja í ríkið á leiðinni heim og sjá hvort ég finni e-ð sniðugt. Hvenær er annars mæting hjá ykkur Ólöf?

Við sjáumst svo í kvöld í MEGA stuði

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Gleðilega páska

Hæ hæ stelpur og strákar
Þá var ég að koma úr mínum öðrum tíma foreldrafræðslunnar og sáum við myndband í dag af eðlilegum fæðingum. Það er í fyrsta skipti sem ég sé svona alvöru fæðingu og táraðist maður bara þegar barnið kom. En ég leyni því ekki að þetta er samt pínu kvíðvænlegt. En þess virði :) En heyrið þið í mér í þessum hugleiðingum á meðan þið planið djamm, já ég er ekki alveg á því akkúrat núna en ég vona samt að þið skemmtið ykkur alveg ógeðslega vel og skemmtið ykkur fyrir okkur líka, þið drekkið tvöfalt er það ekki????? Ólöf ég átti að skila kveðju til þín frá henni Lísu, hún er með mér á námskeiðinu.
Við erum sem sagt á leiðinni til Egilstaða á morgun og ætlum að hafa það alveg ógeðslega gott svo ég segi bara við ykkur gleðilega páska og skemmtið ykkur vel á morgun við hugsum til ykkar og vildum alveg vilja vera með ykkur en maður getur víst ekki verið allstaðar. Við sjáumst svo bara hress eftir páska.
Kveðja Bryndís og Rúnar og litli bumbubúinn.

mánudagur, apríl 05, 2004

Ojjj ojjj OOOOOJJJJJJJJJ

Stelpur....ég er alveg að springa hérna í sófanum heima...á að vera að læra undir próf núna en þar sem ég át svo mikið af namminu mínu á stuttum tíma þá ligg ég hérna í sófanum og bíð eftir að springa. Djö.... líður mér illa. Að maður skuli ekki getað hamið sig, meinaða. Er einhver sem getur hjálpað mér að læra undir prófið...þetta er Samfélagsvitund og samkennd við breytta heimsmynd ;o) Einhver!!! Nei hélt ekki :o(
Kvöldmaturinn minn verður bara grænmeti og ekkert annað (þeas ef ég fæ listina einhvern tímann aftur í kvöld).
Það verður nóg að gera á morgun, próf, flytja verkefni og svo húsfundur(finna lit á blokkina og svoleiðis JIBBÍ) Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að lit á blokkina endilega skellið þeim inn, vil helst fá skárri lit en BRÚNAN sem kellingin niðri í kjallara vill. Mér datt í hug svona eitthvað út í grátt...
Er bara farin að hlakka til miðvikudagskvöldsins, á ég ekki að kaupa eina flösku af tequila sem við getum svo deilt...hvað þurfum við margar flöskur fyrir okkur...ætlar Dögg að mæta...kannski að ég sendi henni bara sms.
Held ég hafi þetta ekki lengra í bili
Adios amigos, hlakka til að hitta ykkur

sunnudagur, apríl 04, 2004

Sunnudagur!!!

Jæja þá er djamm ársins liðið í bili, en ég, Ólöf og Ásta duttum alveg ærlega í það í gær og skemmtum okkur alveg konunglega.....hefði samt alveg mátt sleppa síðasta bjórnum...hummm ;-) Eins og planað var staupuðum við í tequila og urðum alveg haugdrukknar og í svakastuði og djömmuðum fram á rauða nótt....myndirnar sem hún Ólöf tók í gær sanna það!!! Annars er dagurinn í dag búinn að vera alveg sæmilegur, ákvað bara að liggja uppi í rúmi og sofa til kl.16 vegna þess að þar leið mér best......var frekar þunn og þreytt eftir djamm gærkvöldsins.....en það hefur ekki gerst síðan í MS!!!

Annars kom Guðni og kærastan hans með hana Emmu Guðrúnu litilu í heimsókn í dag og er hún algjört krútt! Hann Rúnar Örn var að koma heima frá pabba sínum þannig að ég er að fara að perla með honum.

Munið bara það er líka djamm næsta miðvikudagskvöld.....tequila og læti, en þá er bara best að sleppa þessum síðasta bjór eins og í gær....hummmm! Hvernig er það Sigurveig, getur þú reddað pössum fyrir hana Heiðu þá??? Látið heyra í ykkur.

föstudagur, apríl 02, 2004

Víu víu

Já, það er allt að verða vitlaust...
Í dag ; fimleikamót , Ólöf og Thelma ofl?
Á morgun; aliens vs. predator : Jói, Rúnar, Ruben ofl. og ég held meira að segja að Rúnar ætli að elda!!
óvissuferð; Bryndís
matarklúbbur; Elsa og Fjalar
djamms; Thelma, Ásta og Ólöf
En hvað með SIgurveigu og Dögg... Hvað ætlið þið að gera???????????
Á miðvikudag: dinnerclub ; allir mæta nema austurfarar
Á páskum; djamm????

Það er því nóg að gerast hjá Háksmeðlimum þessa dagana sem er auðvitað mjög jákvætt. Reyndar eru litlar fréttir af henni Dögg okkar. Eru bækurnar búnar að ná henni á sitt vald? Já, það verður betra í sumar er skóla líkur hjá henni.
Annars er bara allt fínt að frétta af mér. Var með 10 mínútna kynningu í gær með skólasystur minni henni Helgu. Við kynntum hugmynd af þverfaglegu námsefni sem við viljum hanna í náttúrufræðum á unglingastigi, nánar tiltekið vef á netinu sem fjallar um þróun manns og jarðar og lífsnauðsynjar ýmsar þ.a. vefurinn færi á slóðir líffr. jarðf. efnafr. og eðlisfræði! Okkur finnst þetta alveg stórsniðugt og kennaranum líka þannig að það er mikið mont í gangi hjá mér núna!
Heyri vonandi í ykkur öllum saman bráðum.
Kveðja, ólöf pólöf

fimmtudagur, apríl 01, 2004

1. apríl

Helló girls
hlupuð þið ekkert apríl í dag eða létuð aðra hlaupa?? Ég gerði bæði, Rúnari tókst auðvitað að plata mig :/ En það var að vísu bara saklaust grín þegar ég svaraði í símann í vinnunni. En ég lét bæði systkinin mín hlaupa. Stefán fór út í búð af því ég sagði honum að Hanna (systir) hefði hringt í mig og spurt hvort ég gæti lánað henni pening og beðið Stefán að fara út í búð fyrir sig áður en hún kæmi heim úr skólanum. Hann trúði mér og fór út í búð reyndar eftir svolítið strögl :) Svo plötuðum við í sameiningu systur okkar og sögðum að hún ætti að hitta vinkonu sína þegar hún kæmi heim úr skólanum. Hanna trúði þessu alveg og hringdi reyndar bara í hana en þá kom vinkona hennar alveg af fjöllum. Hí hí það er gaman að fíflast í systkinum sínum.
En annars er allt gott að frétta, það er komin apríl sem þýðir að nú er bara apríl og maí eftir af minni fyrstu meðgöngu sem er búin að vera alveg ótrúlega ljúf. Mér finnst tíminn hafa þotið áfram og það er svo óraunverulegt að það sé að fara að koma að þessu. En ég get samt sem áður ekki beðið. Ég hlakka mjög til á morgun þá klára ég síðasta foreldraviðtalið mitt fyrir orlof og þarf ekki að taka slíkt viðtal fyrr en eftir ár. Ég er þá búin að taka átta viðtöl á tveimur vikum, mjög fegin að það sé búið.
jæja nóg blaður í bili
bæjó Bryndís

Fimmtudagur...

og svo föstudagur á morgun. Finnst ykkur ekki alltaf vera föstudagur. Mér finnst að minnsta kosti alltaf vera föstudagur. Eg er búin að vera í starfsnámi í Fellaskóla alla vikuna og það er bara búið að vera voða rólegt. Í dag vorum við að baka, gerðum skinkuhorn og skúffuköku. Borðuðum hornin í hádeginu og fáum okkur svo skúffuköku á morgun á meðan við horfum á einhverja videospólu. Lúxusinn... Reyndar er þetta nú ekki fastur liður en þar sem flest allir í unglingadeildinni eru í skíðaferð þá fá þeir sem ekki fóru í ferðina að dunda sér í skólanum.
Hey Ólöf og Dögg (ef sú síðarnefnda fer einhvern tímann á síðuna) hver haldiði að sé skólastjórinn í Fellaskóla:o)....engin önnur en ungfrú Snobb snobb eða öðru nafni Hólmfríður. Hún mundi meira að segja eftir mér og mínum systrum og hældi bekknum okkur í bak og fyrir. Við vorum svo æðisleg og við skvísurnar erum það náttúrulega ennþá hehe.
Núna er ég stödd heima hjá mömmu og pabba og er að bíða eftir að maturinn verði tilbúinn. Svo er ferðinni heitið niður í Skeifu að SKÚRA JIBBÍ SKIBBÍ...ég ELSKA að skúra... NOT
Fleira er ekki í fréttum í bili
Adios amigos

miðvikudagur, mars 31, 2004

Fimleikamót!

Hver hefur áhuga á að koma með mér á fimleikamót um helgina í Bjarkarhúsinu (held að það sé í Hafnarfirði)??? Tvær frænkur Ólafar og Bryndísar eru að keppa og þær eru alveg rosalega góðar....eins og allar hinar sem eru að keppa!!! Ég dró hana Ólöfu með mér þar síðustu helgi og það var mjög gaman. Á laugardeginum er yngri frænkan að keppa, hún Fanney Hauksdóttir en á sunnudeginum er stærra mót og þá eru þær held ég báðar að keppa, Fanney og Harpa Snædís...ásamt besta fimleikafólkinu á landinu... Veit ekki nákvæmlega tímasetningu, en það kemur í ljós á næstunni.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Hola senjorita!

MATARKLÚBBSFRÉTTIR

Þá er komið að því... Ólöf og Ruben munu halda matarklúbbinn í fyrsta skiptið alein ... Hann verður haldinn heima hjá okkur, þið vitið hvar, þann 7. apríl og verður spænskt þema í gangi! Ruben mun elda með hjálp minnar ef þess verður þörf og verður eftirfarandi í boði (á tungumáli rubens):
Black beans
Spanish rice
Spanish chicken a la Amerika (hressa frænkan úr brúðkaupinu..)
Guacamole
Tortillas
Nachos



og það væri auðvitað tilvalið að vera með tequila en það er ekki í anda barnanna (Rúnars Arnar, ekki Sigurðar) þannig að kannski við sjáum bara um þann hluta á laugardeginum. Spænskt tónlist mun óma og svo finnst mér að strákarnir eigi allir að mæta í nautabanabúningum.
Semsagt, allt í anda Espania

Mér líst síðan vel á djamm á laugardeginum því þá geta Bryndís og Rúnar mætt. Þau verða nefnilega stödd upp í sveit er matarklúbbur verður settur. Ásta síðan mætt, eiturhress eins og venjulega þannig að um að gera að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni af komu hennar.

Það er því allt að gerast og spennandi.
Adios senjorítur.

Hvað er þetta, bara enginn sem nennir að kíkja lengur á síðuna!!! :-(

Annars er bara allt gott að frétta af okkur skötuhjúum, við eigum víst að vera að skrifa BSc ritgerð og svoleiðis, en maður er bara orðinn allt of latur þessa dagana.....er t.d. ekkert búin að lesa í dag og samt var ég farin á fætur kl.8 í morgun og lögð af stað upp í skóla (og klukkan er núna 13:40...isssissssisss).....en einhvernveginn hefur okkur Jóa tekist að eyða dágóðum tíma í morgun í að rúnta út um allt og redda hinu og þessu. Svo var ég að klára að skila inn skattaskýrslunni, fékk frest til 1.apríl.....en ég ákvað bara að eyða aðeins meira af tímanum fyrst að hann er hvort eð er ónýtur!!!

En hvernær verður svo matarklúbburinn??? Er það ekki í næstu viku, 7.apríl??? Annars erum við upptekin næsta föstudagskvöld, en erum alveg til í að koma á djammið á laugardeginum ef þið eruð í stuði......erum auðvitað barnslaus þá!! ;-) Við skulum halda partý fyrir ykkur ef það vantar húsnæði. Hvernig væri bara að skella okkur á tequila fyllerý, þá sofnar sko enginn fyrir kl.22....nema þá kannski út af fyllerísdauða..híhíhí! Síðan gætum við kannski kíkt á nýja barinn sem bróðir hans Jóa var að opna, De Palace.



Sko bara kominn litur á síðuna!!!